139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:42]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef reyndar ekki heyrt hv. þm. Atla Gíslason tjá sig um þetta frumvarp, því miður. Það hefur þá farið fram hjá mér. En sá hv. þingmaður hlýtur að vera á mælendaskrá og tjá sig um þetta. Eins og ég fór yfir í máli mínu áðan þá er ekki allt í þessu frumvarpi slæmt, alls ekki. Gerð er tilraun til að koma til móts við ákveðin atriði sem þarf að laga. Mér er hins vegar spurn hvort nægjanlega langt sé gengið og hvort menn hafi verið að einbeita sér að aðalatriðunum og að þeirri hörðu gagnrýni sem birtist okkur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem þingmannanefndin síðan vinnur út frá.

Ég tel því miður að menn hafi aðeins misst sjónar á aðalatriðunum og farið að einbeita sér að öðrum atriðum sem ég rakti í löngu máli í ræðu minni. Ég get því miður ekki farið yfir það í stuttu andsvari en þar minntist ég meðal annars á einstök ráðherraembætti.