139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:46]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tók eftir því að hv. þingmaður sagði að hann óttaðist að Alþingi yrði veikara ef þetta frumvarp yrði samþykkt og gert að lögum. Mig langar því til að spyrja hvort hv. þingmanni finnist Ríkisdagurinn í Svíþjóð, Stórþingið í Noregi og Folketinget eða þjóðarþingið í Danmörku sérstaklega veik þjóðþing á móti framkvæmdarvaldinu í þeim ríkjum. Því hlýtur þingmaðurinn að geta svarað. Það má nefna sem dæmi að við erum að nálgast þessi þing að einu leyti, við höfum samþykkt þingsköp þar sem formenn þingnefnda eiga að koma bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu.

Ég vil hins vegar nota þær 20 sekúndur sem ég á eftir til að segja það meðal annars, af því að þingmaðurinn spurði eðlilega um 4. gr., um fyrri liðinn í 2. mgr. 4. gr., þá er þetta eins og það stendur. Það er sem sé tillaga meiri hlutans að ráðuneytin séu ekki heilög jarlsdæmi með landamærum, heldur sé hægt að taka skrifstofur, segjum ferðamálin, úr einu ráðuneyti og flytja í annað án þess að sérstakan úrskurð þurfi til.