139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:47]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni til að gera tilraun á þessum örskamma tíma til að svara einhverju af spurningunum mínum í ræðunni. Takk kærlega fyrir það ég vonast til að fá frekari tækifæri til að ræða þetta mál við hv. þingmann.

En varðandi þjóðþingin á Norðurlöndum þá er ég enginn sérfræðingur í málefnum þeirra. Við verðum hins vegar að gæta okkur á því, þegar við erum að bera okkar stöðu saman við erlend þing, að skoða það út frá okkar sérstöðu. Hér er hefð fyrir meirihlutastjórn. Það er ekki þannig á öllum Norðurlöndunum og þá litast að sjálfsögðu umhverfið af þeim aðstæðum sem eru til staðar í hverju landi fyrir sig. Við þurfum svolítið, þegar við erum að bera okkur saman við aðrar þjóðir, að reyna að einbeita okkur að því að bera saman epli og epli en ekki epli og appelsínur. Það er sú meginlína sem ég tel að við eigum að hafa þegar við erum að skoða löggjöf og bera okkur saman við aðrar þjóðir. Að sjálfsögðu eigum við ekki að vera feimin við að taka upp það sem vel er gert hjá öðrum þjóðum. Við þurfum ekki alltaf að finna upp hjólið og eigum ekki að vera að því.