139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:52]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Formfestan má ekki vera slík að það sé algerlega girt fyrir það að einhver smálipurð sé möguleg. Mér finnast þessar tillögur varðandi farandstjórnsýsluverkamennina, ef við eigum að kalla þá það, mjög áhugaverðar og eitthvað sem við ættum að horfa á og ræða. Ég tel að það væri fullt efni í heila ræðu frá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að fara aðeins yfir það hverjir helstu kostirnir og gallarnir við þetta kerfi eru.

Við vorum að ræða áðan um stöðuna erlendis. Sums staðar er það þannig eins og menn þekkja að þegar nýr ráðherra tekur við þá er skipt út öllum helstu embættismönnum, hann kemur með sitt starfslið. Það er ekki verið að fara alla leið í þá áttina, þetta er aðeins að tosast yfir í það kerfi. Er ekki allt í lagi að gera slíkar tilraunir? Ég er reyndar ekki viss um að þetta sé rétti tíminn til að fara að stækka verulega starfsmannahópinn (Forseti hringir.) í ráðuneytunum bara einfaldlega út af fjárhagsaðstæðum íslenska ríkisins en ég tel að við eigum (Forseti hringir.) að ræða slíkt sem þetta. Við eigum ekki algerlega að loka á hann.