139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna umræðunnar um festu langar mig að vitna í ræðu Ólafs Jóhannessonar í umræðum um núgildandi lög frá árinu 1969 þar sem hann segir:

„Ég tel, að það sé mikil nauðsyn á því að setja heildarlög um Stjórnarráð Íslands. Eins og rakið er í greinargerð með þessu frumvarpi hefur lagasetning um Stjórnarráðið til þessa verið í molum og þarf ekki að rekja það nánar, en ég held, að það sé æskilegt, að sett séu heildarlög um þetta og þessum málum komið í fastara horf en verið hefur. Ég álít, að þær meginbreytingar, sem í þessu frumvarpi felast, séu spor í rétta átt. Ég álít, að það sé sjálfsagt að lögfesta ráðuneyti þannig, að það sé ekki, eins og reyndar hefur átt sér stað, hægt að setja upp ráðuneyti, án þess að lög séu sett um það. Ég tel einnig æskilegt, að það sé komið á fastari skipun á starfsskiptingu á milli ráðuneyta heldur en stundum hefur tíðkazt.“

Með öðrum orðum, hefur orðið afturför á síðastliðnum fjörutíu og tveimur árum miðað við það sem nú er lagt fram hvað festuna varðar? Erum við að færast aftar en menn voru fyrir árið 1969 þegar núverandi lög voru sett?