139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:56]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir Unni Brá Konráðsdóttur fyrir ágæta og áhugaverða ræðu þar sem hún kom inn á nokkra nýja þætti í málinu. Ég sagði í ræðu minni að ég teldi að það væri margt gott í því sem þingmaðurinn sagði en það væri engu að síður nauðsynlegt að vinna málið heldur meira en við mundum geta lokið við á þeim tveim, þrem dögum sem fram undan eru.

Það kom fram í andsvörum áðan, og hefur reyndar komið fram fyrr í þessari umræðu, að þingskapafrumvarpið sé dæmi um hvernig við getum lögfest og formfest hluti og reynt að æfa okkur í að vinna saman að lausn mála, en þar náðu menn samkomulagi á vinnslustigi málsins. Síðan fór það til þingflokkana þar sem menn gátu komið fram með ábendingar. Núna erum við með mál sem er í það minnsta jafnstórt ef ekki stærra og snýst um form stjórnsýslunnar en ekki bara þingstarfanna. Finnst þingmanninum þá ekki eðlilegt að við hefðum farið þá leiðina og nýttum tímann á næsta þingi til að klára það? Það er margt gott í þessu frumvarpi en þar vantar líka margt.