139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:00]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég innti hv. allsherjarnefndarmenn eftir svörum við því hvers vegna ætlunin væri að fella brott fyrri málslið 2. mgr. 4. gr. og gerði hv. þm. Mörður Árnason stuttlega grein fyrir því. Ég tel að það sé þörf á frekari umræðu um það þannig að maður skilji til fulls hver tilgangurinn er með þessari breytingu. Miðað við það sem fram kom í máli hv. þm. Marðar Árnasonar er ætlunin sú að gera þetta aðeins liðugra til að ákveðnir málaflokkar geti heyrt undir fleiri en eitt svið og það væri kannski hentugra að færa þá á annað svið. Það eru jú rök sem hægt er að hlusta á og fara yfir.

En svo við skiljum fyllilega í hvaða tilvikum það á við og hvað er þarna á ferðinni þurfum við meiri umræðu. Við megum ekki vera það tortryggin á allar breytingar í stjórnsýslunni að við séum (Forseti hringir.) neikvæð gagnvart þeim fyrir fram ef þær koma frá hv. þingmönnum ríkisstjórnarinnar. Það getur vel verið (Forseti hringir.) að það sé eitthvað í þeim sem vert er að skoða.