139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég get ekki orða bundist og kem upp undir þessum lið vegna þess að umhverfisnefnd barst fundarboð í morgun. Fundarboð frá nefndinni eru stöðluð og á þann hátt að þingmenn hafa skyldumætingu. Þessi fundur á að vera á fimmtudaginn og ég mótmælti því vegna þess að á septemberþingi á einungis að ræða brýn mál og nefndir eiga ekki að starfa nema brýna nauðsyn beri til.

Virðulegi forseti. Ég vil benda á það að hv. formanni umhverfisnefndar, Merði Árnasyni, fannst tilefni til að svara þessum andmælum mínum á þann hátt að um óformlegt fundarboð hefði verið að ræða og einstökum umhverfisnefndarmönnum væri algerlega í sjálfsvald sett (Forseti hringir.) hvort þeir kæmu til fundarins eða ekki. Þarna misnotar formaður umhverfisnefndar, hv. þm. Mörður Árnason, (Forseti hringir.) aðstöðu sína sem formaður á síðustu dögum þingsins. (Gripið fram í.)