139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:09]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni um að fundarstjórn forseta er með hreinum ágætum en það þarf að koma fram vegna starfa allsherjarnefndar og þeirrar tilvitnunar að þingmönnum úr þingmannanefndinni hafi verið sent málið til umsagnar að málið barst okkur síðla dags á föstudegi og vorum við beðin um að fara yfir það, gefa álit á því hvort þarna væri farið að tillögum þingmannanefndarinnar og skila því áliti fyrir mánudagsmorgun þegar allsherjarnefnd hittist aftur. Ég svaraði þessu með tölvupósti og sagði jafnframt að þessi frestur væri allt of stuttur, mér væri bæði ljúft og skylt að fara yfir frumvarpið en hins vegar yrði þá að gefast tími til þess en ekki vera í einhverju sýndarsamráði við þingmannanefndina.

(Forseti (SF): Forseti áréttar enn á ný að þessi liður á að vera um fundarstjórn forseta, ekki um efnisatriði máls. Hér á ekki að koma á framfæri upplýsingum úr nefndum eða neinu slíku sem á ekki við um fundarstjórn forseta í þessu tilviki.)