139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:54]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir framsöguræðu hans. Hún var afar athyglisverð á köflum. Þingmaðurinn fór yfir helstu ágreiningsefni frumvarpsins. Mig langar til að deila þeirri skoðun með þingmanninum að 6. gr. gengur nánast út á það að flytja ákvarðanir ríkisstjórnarfunda úr Stjórnarráðinu því að þegar ríkisstjórn er að störfum er ýmislegt sem ekki má ræða opinberlega og er trúnaðarmál sem snertir öryggi ríkisins þannig að ég deili þeirri hugmyndafræði sem fram kom í máli hans.

Hins vegar langar mig til að spyrja þingmanninn að litlu atriði sem leynist í frumvarpinu og er jafnvel stærra en maður getur ímyndað sér því að það fer svo lítið fyrir því. Hvað finnst þingmanninum um að forsætisráðherravæða siðareglur aðstoðarmanna Stjórnarráðsins hjá öðrum ráðherrum? Hvers vegna á forsætisráðherra (Forseti hringir.) að taka sér vald til að setja siðareglur fyrir annarra manna aðstoðarmenn?