139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:55]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé ágætisspurning. Þetta kemur inn á það sem ég sagði í lokaorðum ræðu minnar. Mér finnst það hæpin braut sem menn eru að fara inn á hér og á fleiri stöðum í stjórnsýslunni að stofnanavæða siðareglur. Siðareglur eru inngrónar í menningu okkar og við þekkjum þær öll. Ég held að ríkið geti aldrei leiðbeint mönnum almennilega um siðareglur ef menn hafa alist upp við þær aðstæður sem flest okkar alast upp við. Mér finnst ákaflega skrýtið að forsætisráðherra verði einhvers konar yfirsiðavörður ríkisins sem skipi öðrum ráðherrum siðareglur. Ég fæ þetta ekki til að ganga upp í huga mínum.