139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:01]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Seinna atriðið sem ég vildi koma inn á fór hv. þingmaður aðeins í gegnum í ræðu sinni en það snertir pólitískt skipaða aðstoðarmenn.

Eftir setu mína í þingmannanefndinni víðfrægu komumst við að þeirri niðurstöðu að það þyrfti að aðgreina betur þá aðila sem kæmu með ráðherra inn í ráðuneytin, þ.e. pólitískt skipaðan flokk, og starfsmenn ráðuneytisins sem væru ekki litaðir af pólitískum áherslum hans. Með því að fjölga í aðstoðarliði ráðherra tel ég að við séum a.m.k. að stíga skref í rétta átt. Ég hefði viljað ganga lengra þannig að ráðherra væri bara með ákveðinn hóp, einn til fimm aðstoðarmenn, sem kæmi inn og færi svo út með honum aftur þegar ráðherra viki frá en ráðuneytið sjálft yrði óflekkað af tíðum ráðherraskiptum eða mismunandi áherslum eftir þeim stjórnarflokkum sem væru við völd.