139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:49]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Að mörgu leyti er svolítið erfitt að ræða þetta mál vegna þess að það er svo hrátt, það er svo vanþroskað, og það vantar í það bæði saltið og eðlilega gerjun svo það sé í rauninni brúklegt í pottinn. Þó gæti það orðið göróttum drykk til mikils tjóns ef það næði fram að ganga þó að ekki sé gerjunin mikil í því, en kannski er það vegna þess, virðulegi forseti, að gerjunin er ekki jákvæð.

Margt hefur verið sagt og margt verið gert í sögunni fyrr og síðar. Á hátindi alheimsins, í Eþíópíu, segir sagan að guð hafi hnoðað deig til að skapa manninn, hann lagaði köku úr deiginu og bakaði. Kakan var viðbrennd og þar varð til svarti kynstofninn. Guð gerði aðra tilraun. Sú kaka bakaðist illa, var föl og ræfilsleg og hrá og þar varð til hvíti kynstofninn. En guð lærði af mistökunum og bakaði þá þriðju, segir saga Eþíópa. Kakan var brún og sælleg eins og kynstofn Eþíópa er. Salómon konungur og drottningin af Saba léku þar hlutverk sem ætti að vera öllum kunnugt.

Á Íslandi, virðulegi forseti, þekkjum við Íslendingar og þykir vænt um Bakkabræður, Gísla, Eirík og Helga, af því að þeir eru kunnir að einlægni og því að vera jákvæðir. Við þekkjum skapgerð og stíl Bakkabræðra. Þeir gengu lengst í því að ætla sér að moka sólarbirtunni inn í bæinn í fötum. Viljinn var góður en ekki höfðu þeir erindi sem erfiði.

Verklag núverandi hæstv. ríkisstjórnar minnir um margt á verklag og stíl Bakkabræðra en þó með öfugum formerkjum því að að þótt það minni um margt á sérstæð vinnubrögð Bakkabræðra er þar fátt jákvætt. Frægur er hæstv. forsætisráðherra vor í að vinna með öfugum formerkjum í þessum efnum, að moka myrkri en ekki birtu inn í bæinn, að moka myrkri inn í samfélagið. Það hefur því miður verið hlutskipti og hlutverk þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr að skila ekki leikgleði, árangri eða von inn í samfélagið, nákvæmlega það sem á að vera höfuðhlutverk hverrar ríkisstjórnar, að rísa upp, hvetja til dáða, hvetja til árangurs og skila verkum fram en ekki aftur. Og það er ekki bara að hæstv. ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur reyni að moka myrkrinu inn í bæinn, hún mokar sandi í vélina sem á að vera drifkraftur samfélagsins, í vélina sem á að vera vel smurð af vonum, væntingum og vilja en ekki grjótmulningi til tjóns fyrir þá sem eiga að njóta.

Virðulegi forseti. Því nefni ég þetta í þessu sambandi að það mál sem hér er til umræðu, breytingar á Stjórnarráðinu og stjórnsýslunni, er allt út og suður, ekkert í hendi. Þetta minnir kannski helst á það sem menn hafa í sumum flokkum kallað umræðupólitík. Hvað er umræðupólitík og hvaða árangur hefur hún gefið? Engan enn þá. Hún er kannski eins og sálarfræðin sem er á sama byrjunarreit í dag sem fræðigrein og hún var þegar hún var tekin upp í háskólum fyrir rúmum 100 árum. Það hefur í rauninni ekkert gerst því að mannkynið breytist hægt og skilningurinn vill oft láta á sér standa þegar kemur að umburðarlyndi og væntumþykju við fólkið í landi og löndum.

Suðurnesin eru gott dæmi um svæði sem hefur liðið fyrir lausung og léttúð ríkisstjórnarinnar við að stöðva mál eftir mál, hunsa góðan vilja, góðar hugmyndir, margar metnaðarfullar hugmyndir sem heimamenn hafa verið að leggja niður fyrir sér með aðstoð bestu manna til að reyna að komast út úr vonandi tímabundnum vanda, sem fylgdi sérstaklega í kjölfar þess að bandaríska herliðið fór eins og halaklipptur hundur frá Íslandi, virðulegi forseti, á einni nóttu, braut allt sem heitir hefðir, kurteisi og mannasiðir í samskiptum þjóða. Bandaríkjamenn hegðuðu sér þar eins og druslur og er vægt til orða tekið. Þetta er vandi sem lenti á Íslendingum, (Forseti hringir.) m.a. á Suðurnesjamönnum. Það er mikilvægt, virðulegi forseti, að talað sé um þessa hluti (Forseti hringir.) eins og þeir eru. Það þýðir ekkert að breyta máli ...

(Forseti (ÁI): Forseti vill biðja hv. þingmann að gera hlé á máli sínu þegar forseti slær í bjöllu.) .

Já, var hún að slá í bjöllu, afsakaðu frú forseti, ég heyrði það bara ekki.

(Forseti (ÁI): Forseti vill biðja hv. þingmann að gæta hófs í orðavali þegar rætt er um heilar erlendar þjóðir.)

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að ég var ekki að ræða um heila erlenda þjóð, það er bara þannig. Ég ræddi um stjórnvöld og það er ekki heil þjóð.

Þau vinnubrögð sem við upplifum þarna hafa verið tekin upp hjá hæstv. ríkisstjórn, að skilja þá eftir úti í kuldanum sem eiga um sárt að binda, eiga undir högg að sækja og þurfa á því að halda að stutt sé við bakið á þeim, a.m.k. ekki að það sé skvett sandi í smurdósirnar í drifkraftinum. Þar þarf að smyrja með skynsemi og hvatningu en ekki óbörðu bögglabergi.

Það er þannig, virðulegi forseti, þegar maður hefur langa reynslu á Alþingi og þekkir orðið nokkuð vel angana í öllu stjórnsýslukerfi okkar, að þær hugmyndir sem nú eru uppi eru fyrst og fremst hugmyndir eins hv. þingmanns, núverandi forsætisráðherra Íslands, Jóhönnu Sigurðardóttur. Það er náttúrlega með ólíkindum að slíkt geti átt sér stað að keyra eigi fram í offorsi mál eins og þetta sem þarf að ræða í grunninn, skipuleggja og koma fyrir þannig að hægt sé að vinna samkvæmt því og eftir því í tiltölulega mikilli sátt. Það er ekki gert. Þá spyr maður, virðulegi forseti: Hvers vegna á að keyra þetta mál fram í svona miklu offorsi, eins og hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir vill, þó að það liggi ekkert sérstaklega á því, ekki miðað við almenna stöðu og almenna reynslu sem skiptir máli fyrir Íslendinga? Skyldi það vera að grunnurinn að hugmynd hæstv. forsætisráðherra í stjórnarráðsmálinu, í því máli sem við ræðum hér varðandi Stjórnarráðið, að verið sé að búa eitthvað í haginn, að lina og deyfa íslenska þjóð til að plægja akurinn fyrir stóran vin Samfylkingarinnar í Evrópu, Evrópubandalagið sjálft, stóra bróður sem þeir trúa á og treysta á í einu og öllu og vilja styrkja og leggjast undir feld með án þess að hugsa um hag Íslands í heild hvað þá sjálfstæði íslenskrar þjóðar? Skyldi það vera grunntakturinn í þessu að reyna að rugla allt og alla í ríminu núna þegar öll áhersla hæstv. forsætisráðherra er á það að troða íslensku samfélagi inn í Evrópubandalagið og koma því þannig fyrir að Íslendingar eigi að leita ásjár Evrópubandalagsins í erfiðri stöðu að sumu leyti?

Það vakti athygli, þegar maður nefnir svona líkingar, virðulegi forseti, að ekki fyrir mörgum dögum sagði hæstv. menntamálaráðherra að nemendur Kvikmyndaskóla Íslands hefðu leitað ásjár hennar varðandi framtíð skólans. Hvað gerði hæstv. menntamálaráðherra annað en tala niður til nemenda skólans með þessum orðum? Maður notar ekki orð sem lítillækka en það gerði hæstv. menntamálaráðherra í þessu sambandi, gerði lítið úr því fólki sem býr nú við óöryggi og óvissu og getur ekki skipulagt hlutina eins og til stóð og til var ætlast. Maður á að rétta út höndina í þeim efnum að sýna þessu fólki samstarfsvilja, ræða málin sem jafningjar en ekki þannig að það sé að leita ásjár. Ráðherra á ekki að segja: Aumingjarnir geta komið til mín. Hún á að vera hafin yfir slíkt.

Hvers vegna vill hæstv. forsætisráðherra veikja stjórnsýslu Íslands með þeim tillögum sem hér liggja fyrir, hleypa inn geðþóttahugmyndum, lausung í stjórnun, og veikja til að mynda helstu burðarráðuneyti íslensks samfélags, svo sem eins og sjávarútvegsráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið? Sjávarútvegsráðuneytið, ráðuneyti sem er burðarás íslensks samfélags í öllu er lýtur að velferðarkerfi, uppbyggingu og þróun vegna þess að þar er okkar mjólkurbú sem skiptir mestu máli? Hvers vegna vill hæstv. forsætisráðherra veikja þetta ráðuneyti með því að slengja því inn í eitthvert partí með mörgum öðrum atvinnugreinum, sem eru svo sem ekkert síður merkilegar atvinnugreinar, en það skiptir miklu máli að hlúa að því sem skilar mestum árangri, hefur reynst að mörgu leyti vel og menn binda vonir við og reikna með að þar sé staðfesta sem verður að vera í öllu er lýtur að atvinnuverklagi og atvinnuuppbyggingu í landinu, lýtur að því að skapa sem mest verðmæti úr hverju kílói, hverju grammi af þeim verðmætum sem eru til í auðlindum Íslands bæði til lands og sjávar? Skyldi það vera að hæstv. forsætisráðherra vilji rugla fólk í ríminu, veikja þessi ráðuneyti af tillitssemi við hugmyndir forsætisráðherrans um inngöngu Íslands í Evrópubandalagið? Það er mín skoðun að það sé engin tilviljun. Það er mín skoðun að svo sé, tvímælalaust, og það er ekki af hinu góða og ekki hlutur sem við eigum að láta bjóða okkur þegar við eigum að verja metnað, sókn og framtíð Íslands. Við eigum bara ekki láta bjóða okkur það.

Þeir menn sem stóðu í forsvari fyrir því að Ísland varð sjálfstætt fyrir 67 árum, sjálfstætt ríki, eru forgöngumenn sem við eigum að meta, fylgja eftir og verja það sem þeir fengu áorkað og hefur skilað Íslendingum sem sjálfstæðri þjóð. Nei, þá er sagt að við eigum að stokka upp spilin og það eigi að vera geðþóttaákvörðun forsætisráðherra hverju sinni að stofna til partía og þátta út og suður án þess að ankerisfestan sé til staðar Það gengur ekki í neinu nútímaþjóðfélagi. Þó að það séu ýmsir annmarkar á því að hafa stjórnsýsluna töluvert bundna, bæði í landsmálum og bæjarmálum, er það hlutur sem hefur þróast með reynslunni, með tíðarandanum, með hugsun og vilja fólksins í landinu. Það eru engin rök fyrir því að henda því fyrir borð í einu vetfangi og kalla til einhverja nýútskrifaða fræðinga sem kunna að babla á bók en hafa hvorki verksvit, reynslu né þor. Eina þorið sem þeir hafa sýnt er að vilja skríða undir sæng Evrópubandalagsins, eina þorið. Það er í rauninni skelfilegt að upplifa svona hugmyndir og svona stöðu í okkar litla landi sem á að vera fjölskylduvænt og hefur alla burði til að vera öflugt sjálfstætt ríki ef við hegðum okkur eins og menn.

Mig minnir, virðulegi forseti, að í umhverfisráðuneytinu séu hátt í 15 sviðsstjórar. Bíðum nú við, sviðsstjórar, þeir eru yfirleitt yfir sviðum þar sem ekki eru fleiri en einn maður, sviðsstjórinn sjálfur. Þetta hefur ekki verið spennandi til árangurs eða skilnings eða til að afla velvildar með því sem verið er að vinna á þessum vettvangi eins og það er mikilvægt því að það er grundvallaratriði að við umgöngumst náttúruna með virðingu og tillitssemi og gætum þess að þar standi ekki eftir sár í samskiptum manna á hverjum tíma við landið sjálft. En þetta er ekki til þess fallið og þetta mundi, ef þessu væri hleypt út í svona hugmyndir eins og hér er verið að brydda upp á að forsætisráðherrann geti í rauninni tekið hvaða verkefni sem er af ráðherra ef honum sýnist svo. Ef hann er ekki þægur, ef hann fer einhverja aðra leið en forsætisráðherra vill á hann að geta tuskað hann til og tekið af honum hluta af þeim verkum sem honum er ætlað að vinna. Það eru engin rök fyrir þessu. Þetta eru engin vinnubrögð, þetta er hugmynd sem er ekki hægt, virðulegi forseti, að framkvæma af nokkru viti þar sem vænta má árangurs.

Ekkert mælir með því að við eyðum tíma okkar og þekkingu okkar fólks, sem er að mörgu leyti mjög góð, í það að reyna að finna hjólið upp á nýtt, hjólið er löngu fundið upp. Við þurfum miklu frekar að hugsa um hvernig við notum hjólið og notum möguleikana sem liggja í landi okkar, auðlindum okkar, að nota þá til að styrkja stöðu þjóðfélagsins, þegna samfélagsins og atvinnulífsins því að án atvinnulífsins er ekkert samfélag á Íslandi og án atvinnulífsins og samfélagsins er engin þörf fyrir hvort heldur um er að ræða menntakerfi, heilbrigðisþjónustu, menningarstarf eða aðra þætti. Þetta verður að snúast í takt við það sem við þekkjum, það sem við höfum byggt á þó að menn eigi alltaf að vera með opin augu fyrir því að gera breytingar þar sem eitthvað hefur verið fest í hjólfari.

Það frumvarp sem við ræðum hér hefur ákaflega fátt til brunns að bera í þeim efnum að hægt sé að byggja á því. Það er hægt að tala um skemmtilegar hugmyndir út og suður en menn byggja ekki á þeim frá degi til dags þar sem tryggja þarf að fólkið í landinu hafi til hnífs og skeiðar, menntun, heilbrigðisþjónustu og aðra þætti sem skipta máli og eru grunnstoðir í þjóðfélagi okkar. Nei, ráðuneytin eiga ekki lengur að vera ankeri í stjórnsýslu landsins, geðþóttinn á að taka völdin. Geðþóttinn á að vera ankerið og þá verður allt upp í loft í umræðunni, ekki síst hjá örum og ágengum Íslendingum sem eru þekktir fyrir að hafa takmarkaða þolinmæði í mörgum efnum.

Það er alið á miklum deilumálum með þessu móti og það á að gera úr þeim logandi illindi. Til hvers, virðulegi forseti? Er það til þess að slík mál taki tíma þingsins umfram mikilvæg mál, taki upp síður fjölmiðlanna og skapi þar með skjól fyrir hæstv. ríkisstjórn til að fá þrýsting á sig til að ganga til verka, láta hendur standa fram úr ermum fyrir atvinnulífið í landinu, heimilin og festu samfélagsins? Er þetta til að búa sér skjól til að losna við að gera hluti til gagns?

Virðulegi forseti. Hv. þm. Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar, sagði í ræðustól að menn ættu bara að stytta ræður sínar, samþykkja það sem væri á borðinu og þá væri hægt að fara í önnur mál. (Gripið fram í.) Ja, það er innifalið í því að stytta ræðurnar, menn skuli ekki vera að eyða tíma í það meira heldur ganga til atkvæða og klára málið. (Gripið fram í.) Þetta er nú bara á góðu bryggjumáli, sem við hv. þingmaður erum báðir aldir upp við, kallað „hold kjæft“. Þetta er danska slettan sem er þekkt á bryggjunum þar sem við erum aldir upp yfir svona. Það er svolítið merkilegt, virðulegi forseti, þegar maður lítur yfir þennan hóp þar sem eru, margir hverjir, ágætir nýgræðingar á þessum vettvangi í lagasetningu, að þar er til að mynda hv. þm. Helgi Hjörvar sem er þekktur fyrir að skila rökrænni hugsun í máli sínu en það er líka einkenni á þeim ágæta félaga að hann ræður ekki við slægðina, hann ræður ekki við refskapinn. Það er svo sem hluti af lífsins melódí en það ruglar margt í ríminu þegar menn eru að koma á hlutum sem eiga að standa til frambúðar. Gylliboðin eru ekki innlegg í þá baráttu.

Með hugmyndinni um þessar breytingar, geðþóttabreytingar hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, er í raun verið að reyna að breyta stjórnsýslunni í eins konar kjaftaklúbba, ráða 20 hér og 10 þar og taka ákveðin verkefni, og þetta er ekki gert í neinu samráði eða eðlilegu hlutfalli við það sem gengur og gerist heldur bara eins og í jarðvinnu út af fyrir sig, í malarvinnu. Stjórnsýsla Íslands á ekki að vera slík malarvinna. Það á ekki að byggja á skyndilausnum eða gylliboðum því að það leiðir alltaf til þess sem við þekkjum í samfélaginu og er ekki af hinu góða og heitir í einu orði slúður. Það er stundum erfitt að greina á milli sannleikans og slúðursins í fjölmiðlum nútímans en Alþingi Íslendinga á að verja það vinnslustig. Það gengur ekki að æra hver annan og espa á röngum forsendum. Til er ágæt vísa um það eftir Jörund Gestsson, frá Hellu við Steingrímsfjörð, þar sem hann heyrði tvo einstaklinga, í þessu tilviki reyndar konur, bera á borð illmælgi um vin hans. Vísan var svona, með leyfi forseta:

Þær sem aldrei hafa haft

haft á tungurótum,

saman æfa eyru og kjaft

eftir fjandans nótum.

Þetta er kjarnyrt íslenskt mál og tungutak en þetta eru hlutir sem við eigum að reyna að losa okkur við í lagasetningunni sem skiptir máli fyrir ankeri Íslands — stjórnkerfi Íslands. Þetta er enginn leikur, þetta eru hlutir sem menn eiga að vinna til sáttar og það tekur tíma, sérstaklega þegar uppi eru snarpar hugmyndir um breytingar. Þær verða að fá að þroskast og taka tíma annars byrjar einfaldlega hringekja og darraðardans þar sem herrann núna fellur frá og næsti tekur þráðinn upp aftur. Það er ekki sá stöðugleiki sem við þurfum að vinna að í okkar samfélagi. Við eigum að geta náð 95% samstöðu í því sem við erum að véla um, reynslan sýnir það, ekki síst í nefndum þingsins allt fram til þessa. Þar hafa menn náð saman og það eru undantekningar ef menn ná ekki saman. Í grundvallaratriðum verður að leggja meiri vinnu í þetta en ella og gera allt sem í mannanna valdi stendur til að slípa hlutina til samkomulags.

Virðulegi forseti. Af hverju er verið að þrýsta á þessar breytingar núna á þeim tíma þegar margt er í veikri stöðu hjá okkur og stór hluti landsmanna á mjög undir högg að sækja og hefur um allt annað að hugsa en hvunndagsbreytingar sem við viljum gera í almennu kerfi, stjórnkerfinu, til viðmiðunar? Af hverju er verið að gera þetta núna? Er það af því að hæstv. forsætisráðherra segir: Af því bara, ég vil það? Það liggur þannig á borðinu, það er eins og að metnaður fylgdarliðs hennar sé ekki meiri en svo að það láti bjóða sér þetta. Í þessu máli eins og mörgum öðrum stórum málum á Alþingi tala stjórnarsinnar ekki. Þeir virðast láta nægja að þeim sé sagt hvað þeir eigi að gera, þeir kryfja ekki málin til mergjar, brjóta ekki upp það sem um er að ræða, taka ekki á þeim skoðanaskiptum sem eðlilegt er að fari fram heldur þegja þunnu hljóði og segja við sjálfa sig: Látið hann bara vaða. Látið hann bara koma. Hann ræður ekki við okkur. Þetta er ekki þjóðfélagslega væn afstaða og það er skelfilegt að margir frábærir einstaklingar hér skuli láta teyma sig inn á þessa braut á hv. Alþingi.

Virðulegi forseti. Það liggur ekkert á í þessu máli nema ef nota á það, eins og ég gat um fyrr í ræðu minni, í samningaviðræðum til að mynda við Evrópubandalagið. Þá kann að liggja á. Ekkert annað knýr á um að ljúka þessu máli í offorsi og ósátt, ekki bara milli stjórnar og stjórnarandstöðu heldur einnig og ekkert síður vegna ósættis innan raða stjórnarsinna, þó að það liggi fyrir að það er ekki í eins ríkum mæli og milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Til hvers, hvaða undirgefni og hlýðni er þetta hjá stjórnendum nefnda og liðsmönnum í nefndum að láta bjóða sér þetta? Það er ekki auðvelt að skilja það.

Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar málum er stillt þannig upp að hæstv. forsætisráðherra vilji geta refsað óhlýðnum ráðherrum, tekið af þeim málaflokka. Hvað er þá orðið af ríkisstjórn Íslands? Hvað er þá orðið af almennri viðmiðun og almennum leikreglum sem menn verða að geta treyst á hvort sem er til lands eða sjávar. Leikreglurnar skipta öllu máli í þessu og þó að alltaf megi reikna með að eitthvað fari úrskeiðis í leikreglunum verða þær samt að vera til staðar, það kann að þurfa að breyta þeim en ekki til að búa til þá naglasúpu sem hér er boðið upp á með ótal tegundum af kolryðguðum nöglum. Það er ekki vænlegur grautur þótt út á grautinn eigi að vera bros hæstv. ríkisstjórnar.

Eitt gott smádæmi sem menn eru að vinna í þessu og tengist alveg klárlega hörkunni við að reyna að koma þessu máli í gegn, þ.e. að breyta ákveðnu ferli íslenskrar stjórnsýslu og aðlaga hana stóru þjóðunum í Evrópu, sem voru frægastar í gegnum árhundruðin fyrir þrælahald og við þekkjum öll, og aðlaga að vilja þeirra og væntingum og veikja mátt Íslands. Og dæmið sem ég vil nefna er bara sú einfalda hugmynd að láta sér detta það í hug varðandi fjárlög landsins og fjárlaganefnd að taka alla safnliðina út úr fjárlaganefnd og henda þeim inn í embættiskerfið. Þetta eru mál sem varða hundruð smárra verkefna um allt land, metnaðarfullra verkefna sem gefa vonir og væntingar, verkefni sem fólk vill leggja hönd á, taka þátt í að skapa. Nú á allt í einu að fækka heimsóknum nokkur hundruð almennra Íslendinga frá öllum byggðum landsins til fjárlaganefndar af því að fjárlaganefnd vill ekki heyra raddir þeirra með þessu móti. Það truflar hana, hún talar ekki við hvern sem er. Það er eitthvað að gerast í landi okkar sem er áhyggjuefni. Það er stjórnleysi, það er agaleysi í allt of miklum mæli, öfund og græðgi, pirringur, uppgjöf og vonleysi. Við þingmenn eigum að standa saman um það að snúa vörn í sókn, láta þetta ekki hrekjast eins og korktappa á öldunni heldur snúa vörn í sókn og berjast fyrir fólkið í landinu, virðulegi forseti.