139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:31]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Mörður Árnason vekur athygli á eðlilegri og góðri spurningu en því er fljótsvarað í stuttu máli. Við Íslendingar hljótum fyrst og fremst í okkar verklagi og okkar vilja á Íslandi að miða við okkar reynslu og okkar möguleika. (MÁ: Saltið í sjónum, saltið í sjónum.) Já, já, saltið í sjónum nákvæmlega því að við lifum á sjónum og hv. þingmaður hefur menntast vegna þess. Og vonandi á hann eftir að skila góðu hlutverki.

Við erum eina fiskveiðiþjóðin í Evrópu og lifum á því. (Gripið fram í.) Aðrar þjóðir í Evrópu, eins og hann nefndi í Skandinavíu, eru iðnaðar- og verslunarþjóðir, hafa allt aðra viðmiðun og allt annan grunn og eru yfirkeyrðar, til dæmis okkar ágætu frændur Norðmenn, þeir eru svo nískir að þeir trúa ekki einu sinni á líf fyrir dauðann, við þurfum að rækta lífið fyrir dauðann eins og lífið eftir dauðann.

(Forseti (ÁI): Forseti vill beina þeim tilmælum til hv. þingmanna í sal að þeir veiti ræðumanni svigrúm til að ljúka máli sínu á þeim stutta tíma sem hér er til andsvara.)