139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér að í skýrslu þingmannanefndarinnar svokallaðrar er talað um formfestu og oddvitaræði meðal annars, og hafa þeir þingmenn, sumir hverjir sem sátu í þessari nefnd, minnst á það í ræðu. Ég velti fyrir mér, frú forseti, og langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að sú breyting að losa enn frekar um formið, formfestuna, regluverkið sem er þó til staðar í dag, sé til þess fallið að minnka oddvitaræðið, hafi það verið til staðar. Ég velti þessu fyrir mér, frú forseti, og spyr þingmanninn þessarar spurningar. Það er mjög mikilvægt að við gerum okkur öll grein fyrir því, bæði við sem hér erum og þeir sem eru að hlýða á okkur, að það hefur margoft komið fram hjá þeim er skiluðu góðri skýrslu um svokallaða þingmannanefnd að verið er að fara þvert gegn þeim tillögum sem þar eru lagðar fram.