139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:42]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vék að þessu í ræðu minni. Það er engin spurning að mínu mati að það spilaði inn í þetta afstaða ákveðinna stjórnmálamanna á Íslandi þar á meðal hæstv. forsætisráðherra til að koma okkur inn í Evrópusambandið með góðu eða illu, veikja fótaburð og mátt samfélagsins þannig að við á einhverju stigi yrðum fegnir að leggjast á knén og skríða inn í Evrópusambandið, skríða inn í kæfubelginn í Brussel. (Gripið fram í: Og hundaþúfuna?) Ekki einu sinni hundaþúfuna, þeir dekra við hundana, þeir mundu aldrei dekra við okkur Íslendinga. Þeir vilja éta okkur með húð og hári og þeir mundu ekki einu sinni hrækja beininu í íslenska fiskinum þó að það færi í kokið á þeim. Þeir mundu kokgleypa það, virðulegi forseti.

Þetta er það sem skiptir máli og í löngu máli þyrfti að færa nánari rök fyrir þessu en ég kom inn á þessi atriði í ræðu minni og ítreka að þarna er maðkur í mysunni.