139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:52]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Var það ekki í fyrravetur, fyrsta vetur þessa þings, sem fannst skipulagsblað þar sem stjórnarandstæðingar höfðu skipulagt það fyrir fram fyrir daginn og kvöldið hvernig ætti að fara í andsvar hver við annan? Til hvers? Til þess að afla upplýsinga? Til þess að spyrja út úr? (Gripið fram í: Missa ekki af neinu.) Varla, því hver maður hefur 40 mínútur og hafði í þeirri umræðu aukinn ræðutíma. Þeir voru að spyrja hver annan, sjálfstæðismaður sjálfstæðismann, framsóknarmaður framsóknarmann, framsóknarmaður sjálfstæðismann og sjálfstæðismaður framsóknarmann. Þetta er auðvitað ekkert annað en misnotkun, forseti, á því formi sem við komum okkur upp fyrir um það bil 20 árum síðan. Menn verða auðvitað að sæta því að (Gripið fram í: …afnema það.) menn notfæri sér þingsköpin eins og hægt er. T.d. hélt Jón Gunnarsson ræðu sem ég kærði mig ekki um að fara í (Forseti hringir.) andsvar við hann um. Það var bara þannig. Ég hef fullan rétt til þess. (Forseti hringir.) Það getur enginn bannað mér að fara ekki í andsvar við hv. þingmann Jón Gunnarsson (Forseti hringir.) sem betur fer.

(Forseti (ÞBack): Forseti biður hv. þingmenn að virða ræðutíma.)