139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:01]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það segir töluvert um forgangsröðunina að hér skuli vera mjög mikið af málum á dagskrá sem væri mun þarfara að ræða. Ég nefndi í gær, frú forseti, þá hugmynd að breyta dagskránni og að við tækjum umræðu um að Íbúðalánasjóði verði veitt heimild til að veita óverðtryggð lán. Það eru gríðarlegur þrýstingur á það úti í samfélaginu. Mikið er kallað eftir því að Alþingi bregðist við og geri breytingar. Það er raunar með ólíkindum að ekki sé orðið við því og ekki sé mögulegt af hálfu hæstv. forsætisráðherra og virðulegs forseta að gera breytingar þannig að við getum rætt þau mál. Ég tek þar af leiðandi undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Það má einnig taka umræðuna um Grikkland og evruna og þann gríðarlega vanda sem þar er í gangi. Bretar undirbúa áætlun (Forseti hringir.) um hvernig eigi að bregðast við ef og þegar evran hrynur og bankakerfið algjörlega. (Forseti hringir.) Af hverju tökum við ekki umræðu um þetta og leggjum til hliðar þetta mál ?