139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:31]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég lýsti því áðan að meiri hlutinn í hv. allsherjarnefnd telur mjög brýnt að efla pólitíska skrifstofu og stefnumótun í ráðuneytum og þess vegna er teljum við brýnt að setja og treysta kerfi aðstoðarmanna eins og gerð er tillaga um í frumvarpinu. Vegna fyrirspurnar hv. þingmanns um starfsmenn Alþingis og aðstoðarmenn hygg ég að hún hafi verið að spyrja um aðstoðarmenn þingmanna og vil ég því upplýsa að ég hef verið stuðningsmaður þess sem hefur verið ákveðið í forsætisnefnd, að niðurskurður bitni ekki á aðstoðarmönnum formanna þingflokka, formanna flokka sem eru í stjórnarandstöðu til þess að vega upp á móti aðstoðarmannakerfi ráðherra.

Nýja kerfið sem við settum og fikruðum okkur inn á með aðstoðarmenn þingmanna var mjög dýrt en ég ætla sannarlega að vona að við getum tekið það upp innan tíðar aftur.