139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:34]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var eitt af þeim atriðum sem ég tók upp við 1. umr. Hér er gerð tillaga um að út úr frumvarpinu falli að hvert ráðuneyti skuli óskipt lagt til eins og sama ráðherra. Það þýðir með öðrum orðum að í hverju ráðuneyti geti verið starfandi fleiri en einn ráðherra. Þetta fyrirkomulag er mjög algengt í löndunum í kringum okkur og fer kannski eftir verkefnaþunga hverju sinni, þörf á sérfræðivinnu eða -þekkingu en kannski einnig eftir áherslum og því hversu brýnt er að vinna mál áfram. Til að mynda eru tveir ráðherrar í norska utanríkisráðuneytinu. Annar er þróunarmálaráðherra, hinn er það sem við þekkjum sem utanríkisráðherra. Í mörgum af löndunum næst okkur eru líka (Forseti hringir.) sérstakir Evrópuráðherrar og þeir eru þá í utanríkisráðuneytinu. Ég tek þetta bara sem dæmi.