139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:41]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þori ekki að fullyrða hvaðan þessi tillaga kom upphaflega en ég hygg að hún sé komin frá nefnd sem hæstv. forsætisráðherra skipaði til þess að skoða Stjórnarráðið. Hún rataði hins vegar ekki í frumvarpið og var þess vegna ekki til umræðu hér eða í nefndinni og kom ekki inn í umsögnum frá aðilum. Þetta var ný hugmynd og þess vegna fékk hún kannski ekki nægilega umfjöllun.

Ég tel að þetta þurfi að ræða sérstaklega við samtök opinberra starfsmanna. Sjálf tel ég eðlilegt að launaskrifstofa fjármálaráðuneytisins fari með starfsmannamál almennt og það eigi við um fleiri þætti en bara laun og kjarasamninga því að það er svo margt sem hangir á þeirri spýtu sem er ekki bara skrifað í kjarasamninga.