139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:42]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hennar í umræðuna. Hv. þingmaður kom inn á nokkur atriði. Eitt sem ég hnaut um var það sem hún sagði um mikilvægi þess að við drægjum lærdóm af því sem gerðist í hruninu, að formfestu hefði skort og, svo ég noti hennar orð, að Stjórnarráðið hefði að hennar mati ekki verið gott.

Hv. þingmaður sagði skemmtisögur af fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra sem hélt ekki fundargerðir og skrifaði ekki tölvupóst og gagnrýndi það með þeirri sögu. Ég vil færa okkur aðeins nær í tíma. Eftir hrun, þegar við áttum að vera búin að læra allt þetta, þegar við kölluðum eftir gögnum og ég lagði fram ótal fyrirspurnir, bæði til hæstv. fjármálaráðherra og utanríkisráðherra um fundargerðir, um nótur frá fundum þar sem þeir hittu (Forseti hringir.) innlenda og erlenda ráðamenn, þá voru ekki haldnar neinar fundargerðir. Þetta var eftir hrun, þegar við vorum búin að sjá afleiðingarnar af þessum skorti (Forseti hringir.) á formfestu.

Heldur hv. þingmaður virkilega að þetta breytist? (Forseti hringir.) Viðkvæðið var alltaf: Svona hefur þetta alltaf verið gert.