139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:44]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef greinilega komið við snöggan blett hjá hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur. Ég hef sjálf kallað hér eftir gögnum, eftir einmitt því sem hún kallar nótur af fundum, og það hefur stundum reynst erfitt vegna trúnaðar sem á slíkum gögnum hvílir. Það er nærtækt að minnast upptöku sem mun hafa verið gerð af samtali þáverandi seðlabankastjóra við seðlabankastjóra Bretlands, sem ekki hefur verið opnuð fyrir öðrum en hv. þingmönnum sem eiga sæti í fjárlaganefnd. Það þykir mér mjög miður. (Gripið fram í.)

Ég verð að segja eins og er að hv. þingmaður hefur ekki alveg hreint áttað sig á tilgangi þessa frumvarps eða þeim breytingum sem hv. allsherjarnefnd hefur gert á því. Þær eru einmitt til þess fallnar að koma til móts við þau sjónarmið (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður lýsti hér, að koma til móts við þá kröfu að fundir væru skráðir og að gögnum væri til haga haldið og þau gerð opinber.