139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:49]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við enn stjórnarráðsmálið sem hæstv. ríkisstjórn telur mikilvægasta málið um þessar mundir. Við höfum rætt þetta í fleiri klukkutíma og ekkert lát er á umræðunni. Hæstv. forsætisráðherra virðist ekki ætla að gefa sig með það að þetta sé mikilvægasta málið sem liggur nú fyrir landsmönnum, að breyta Stjórnarráðinu í óþökk nánast allra þingmanna. Eins og við vitum hafa stjórnarliðar lítið blandað sér í þessar umræður og virðast vera sáttir við þetta mál allt saman eins og það liggur fyrir sem sýnir forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar.

Það er hneykslanlegt að þetta skuli vera forgangsröð ríkisstjórnarinnar vegna þess að hér liggur mikið á að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Hér er mikið atvinnuleysi og síðast en ekki síst, sem er öllu verst, er hér líka mikill landflótti.

Hæstv. fjármálaráðherra kemur nær daglega fram í fjölmiðlum, ber sér á brjóst og kallar það mikinn árangur sem hefur náðst í ríkisfjármálum. Þrátt fyrir það hefur hallinn á ríkissjóði aldrei verið meiri og er jafnvel orðinn svo alvarlegur að það er á mörkunum að hægt sé að sjá út úr því að ríkið geti nokkurn tímann staðið við skuldbindingar sínar.

Þegar hæstv. fjármálaráðherra talar telur hann ekki upp þær duldu skuldir sem fyrir liggja, eins og skuldbindingar lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna upp á 400 milljarða og svo mætti lengi telja. Samt taldi hæstv. fjármálaráðherra í himnalagi að setja Icesave-byrðarnar á herðar þjóðinni. Ég segi ekki annað en það, frú forseti, að hvar stæðum við þá sem þjóð hefði það orðið að veruleika þrátt fyrir að nú séu miklar líkur til að þrotabúið geti að fullu greitt þetta upp? Eftir stendur elja þingmanna, m.a. Framsóknarflokksins, við að veita ekki ríkisábyrgð á þessa samninga sem voru vonlausir frá upphafi.

Í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur kom síðan fram að hér hefði verið mikil leyndarhyggja á árum áður. Ég minni þingheim á leyndarhyggjuna sem einkenndi störf þessarar ríkisstjórnar strax í byrjun, leyndarhyggju í þá átt að hér var búið að semja um ákveðið málefni fyrir alþingiskosningar 2009 sem gekk meðal annars út á það að þrátt fyrir stefnu Vinstri grænna um að sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu var samt búið að semja við Samfylkinguna um að hleypa því máli í gegnum þingið, þ.e. ef þeir kæmust í stjórn með Samfylkingunni sem raunin varð svo.

Allir þekkja leyndarhyggjuna í sambandi við Icesave-hörmungarmálið allt. Það var komið heim með glæsilegan samning að áliti hæstv. fjármálaráðherra. Hann var svo glæsilegur að þingmenn áttu ekki einu sinni að fá að sjá hann. Svona hefur þetta verið rökstutt í ljósi þess að hér var leyndarhyggja áður sem og foringjaræði. Þegar vinstri stjórnin komst til valda eftir heilt bankahrun, eftir hrun heillar þjóðar, var það rökstutt: Þeir máttu þetta, við megum þetta líka. Þetta hafa verið einkunnarorð ríkisstjórnarinnar: Þeir gerðu þetta, við gerum þetta líka, þrátt fyrir fögur fyrirheit úr kosningabaráttunni um algjört gegnsæi, opna stjórnsýslu, engin leyndarmál og allt uppi á borðum.

Frú forseti. Því miður hefur þetta verið alveg á hinum endanum, sjaldan hefur verið erfiðara að fá upplýsingar innan úr ráðuneytunum, frá stjórnsýslunni, um þau mikilvægu málefni sem þingmenn kalla eftir.

Það er ekki hægt að hrósa þessari ríkisstjórn því að við framsóknarmenn höfum frá kosningum kallað eftir forgangsröðun hjá henni um hvernig haga eigi ríkisútgjöldum og að því verði forgangsraðað hverju við eigum að hlífa og hverju við eigum að fórna.

Að mínu mati ætti ríkisstjórn sem starfar nú í landinu að leggja áherslu á meginstoðir samfélagsins, á löggjafann, þ.e. Alþingi sjálft, Landhelgisgæsluna, dómstóla, menntakerfið og heilbrigðiskerfið. Er til of mikils mælst að þessi fimm atriði verði sett í forgang? Í stað þess að styrkja Alþingi bæði faglega og fjárhagslega til að hægt sé að semja hér vandaða löggjöf fer ríkisstjórnin hina leiðina og styrkir sjálfa sig, framkvæmdarvaldið.

Hér hefur verið vitnað í óteljandi skýrslur sem gerðar hafa verið frá hruni. Við ræðum um rannsóknarskýrslu Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar. Við erum að tala um skýrsluna sem er kölluð Samhent stjórnsýsla sem nefnd handvalin af hæstv. forsætisráðherra skrifaði. Sú skýrsla er hér fylgiskjal með þessu frumvarpi og sem það byggir að mestu leyti á. Fleiri skýrslur liggja fyrir, t.d. sú sem ég hef hér með mér og er frá 2009, Eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Það hefur lítið verið fjallað um þá skýrslu en þegar í hana er gluggað kemur ýmislegt í ljós sem hefði svo sannarlega mátt hafa til hliðsjónar við samningu þess frumvarps sem nú liggur fyrir um breytingar á Stjórnarráðinu.

Ég þreytist ekki á að tala um að fyrst og fremsti þurfi að styrkja Alþingi. Á síðustu fjárlögum tóku ráðuneyti til sín í rekstrarkostnað 6 milljarða en Alþingi 1 milljarð. Þarna er himinn og haf á milli. Í frumvarpi þessu er enn á ný lagt til Alþingis því að styrkja á framkvæmdarvaldið enn frekar. Hér er verið að færa vald frá Alþingi til forsætisráðherra sem starfar á hverjum tíma og raunverulega ætti forseti Alþingis að koma úr stjórnarandstöðuflokkunum í okkar stjórnskipan. Með því fyrirkomulagi sem og því að hafa hér öfluga lagaskrifstofu Alþingis, eins og ég hef lagt til, væri hægt að sía út þau mál sem eru ónýt þegar þau koma inn í þingið. Þá getur forseti beitt því neitunarvaldi að taka ekki mál á dagskrá sem ganga beinlínis gegn öðrum lögum, ganga gegn stjórnarskrá og síðast en ekki síst gegn því að löggjafinn missi áhrif sín til framkvæmdarvaldsins eins og gerist í frumvarpi þessu.

Það mál ætti ekki að vera þingtækt sem ríkisstjórn kemur með inn í Alþingi ef það hefur það í för með sér að Alþingi framselji löggjafarvald sitt.

Ég get líka talið upp öll þau frumvörp sem hafa komið inn í þingið síðustu tvö árin, eftir að ég tók sæti sem þingmaður, þar sem lagt er til að reglugerðarvæða lagafrumvörpin. Þessi siður berst okkur frá Evrópusambandinu, en þegar reglugerðarákvæði er sett í frumvarp sem verður að lögum er það hreint og beint framsal á löggjafarvaldinu til embættismanna í ráðuneytunum. Þetta er mjög athyglisvert, sérstaklega í ljósi þess að fallið hafa óteljandi dómar og líka úrskurðir frá umboðsmanni Alþingis sem kveða á um það að ráðherra hafi gengið of langt í reglugerðarvæðingu og sett reglugerðir sem hreinlega er ekki stoð fyrir í lögum. Þessum málum fjölgar sífellt. Þetta er mjög alvarlegur hlutur en þetta er nokkuð sem hér hefur skapast hefð um. Ég tel að Alþingi verði að stíga út úr þessum hring því að samkvæmt stjórnarskránni fer Alþingi eitt ásamt forseta Íslands með löggjafarvaldið, ekki framkvæmdarvaldið og því síður embættismenn í ráðuneytunum.

Hér er ég með skýrslu þingmannanefndarinnar þar sem fjallað er um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það hefði verið mjög skynsamlegt hjá þeirri ríkisstjórn sem nú situr að leggja samhliða fram frumvörp um breytingu á Stjórnarráðinu annars vegar og styrkingu á löggjafanum hins vegar. Þá væri hægt að ræða þessi mál saman og þá gætum við tekið á því heildrænt, að styrkja löggjafann og framkvæmdarvaldið í leiðinni án þess að löggjafinn færist yfir á hendur framkvæmdarvaldinu.

Mig langar til að lesa upp úr bls. 5 í skýrslu þingmannanefndarinnar þar sem fjallað er um meginniðurstöður og ályktanir þingmannanefndarinnar eftir að þingmannanefndin var búin að fara yfir rannsóknarskýrslu Alþingis. Þar segir í kafla 2.1 þar sem fjallað er um Alþingi, með leyfi forseta:

„Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er sett fram gagnrýni á störf og starfshætti Alþingis sem mikilvægt er að bregðast við. Meginniðurstöður þingmannanefndarinnar varðandi Alþingi eru þær að auka þurfi sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, leggja beri meiri áherslu á eftirlitshlutverk þingsins og auka fagmennsku við undirbúning löggjafar.

Þingmannanefndin telur brýnt að Alþingi taki starfshætti sína til endurskoðunar, verji og styrki sjálfstæði sitt og marki skýr skil á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Alþingi á ekki vera verkfæri í höndum framkvæmdarvalds og oddvitaræðis.

Þingmannanefndin telur fulla ástæðu til að taka alvarlega gagnrýni í umfjöllun vinnuhóps um siðferði um íslenska stjórnmálamenningu og leggur áherslu á að draga verði lærdóm af henni. Alþingi á að vera vettvangur umræðu sem tekur mið af almannahagsmunum. Góð stjórnmálaumræða næst fram með því að láta andstæð sjónarmið mætast þar sem byggt er á staðreyndum og málin eru krufin til mergjar. Íslensk stjórnmál hafa ekki náð að þroskast nægilega í samræmi við það. Stjórnmálaumræður á Alþingi hafa einkennst um of af kappræðum og átökum og því þarf að efla góða rökræðusiði á Alþingi. Mikilvægt er að Alþingi ræki umræðuhlutverk sitt og sé vettvangur lýðræðislegra og málefnalegra skoðanaskipta.

Alþingismönnum ber að sýna hugrekki, heiðarleika og festu í störfum sínum. Brýnt er að Alþingi og alþingismenn endurheimti traust þjóðarinnar með orðum sínum og athöfnum.“

Hvað segir þessi fyrsti kafli skýrslu þingmannanefndarinnar okkur og hvaða lærdóm eigum við að draga af honum? Jú, meginstefið í þessum kafla er eins og ég hef svo margoft farið yfir í ræðum mínum þrígreining ríkisvaldsins, samanber 2. gr. stjórnarskrárinnar, og það að Alþingi sjálft, sjálfur löggjafinn, sé fullkomlega sjálfstætt frá framkvæmdarvaldinu.

Hér er einnig fjallað um hið svokallaða oddvitaræði og að Alþingi megi ekki vera verkfæri í höndum framkvæmdarvaldsins. Hvað er lagt til með þessu frumvarpi um breytingar á Stjórnarráðinu annað en fullkomið oddvitaræði þar sem alræðisvald er flutt frá þinginu yfir til forsætisráðherra sem starfar hverju sinni? Hvað er það annað, frú forseti, en hreint og klárt oddvitaræði? Það er svo mikið oddvitaræði að það á að afmá öll ráðherraembætti úr lagasafninu. Það á að afnema öll ráðuneytaheiti úr lagasafninu og þá má segja að einungis verði eftir aðstoðarráðherrar sem starfi við hlið hæstv. forsætisráðherra. Ég hélt að við værum öll sammála um að við ætluðum að læra eitthvað af þeim hörmungardögum sem við mættum hér haustið 2008.

Þetta er líka undarlegt í ljósi þess að þetta oddvitaræði í frumvarpinu sem nú liggur fyrir er lagt til af þeim aðila sem hefur setið í rúm 33 ár á þingi, ætti að muna sinn fífil fegurri og vita hvernig umræður undanfarinna fjögurra áratuga hafa farið fram. Sá þingmaður er hæstv. forsætisráðherra, nú starfandi, Jóhanna Sigurðardóttir. Ófáar ræðurnar hefur sú ágæta kona haldið sem óbreyttur þingmaður úr þessum ræðustól og gagnrýnt þetta. Ég ætla svo sem ekki að segja að vald spilli en það sem er augljóst í máli þessu er að minnsta kosti að sá sem fær völd missir samband við þá sem í kringum hann eru. Um leið og þessi ríkisstjórn tók við völdum virðist hafa verið farið í sömu gömlu hjólförin. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar var notað viðkvæðið: Þeir gerðu þetta, við megum þetta líka. Þetta minnir óneitanlega á einn ákveðinn aldur í menntakerfi okkar, fyrsta stigið.

Í skýrslunni sem þingmannanefndin samdi eftir rannsóknarskýrslu Alþingis leggur hún mikla áherslu á að það ætti að styrkja eftirlitshlutverk þingsins, rétt þingmanna til upplýsinga og aðgengilegrar og faglegrar ráðgjafar og stöðu stjórnarandstöðunnar á Alþingi því að stjórnarandstaðan gegnir afar mikilvægu aðhaldshlutverki. Það sem þingmannanefndin taldi líka að þyrfti að endurskoða var það verklag sem hefur tíðkast í gegnum árin við framlagningu stjórnarfrumvarpa. Hún hvatti til aukins sjálfstæðis þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu í því efni. Nefndin lagði það til að ríkisstjórninni yrði gert að leggja fram stjórnarfrumvörp með mjög góðum fyrirvara þannig að okkur þingmönnum gæfist gott ráðrúm til að taka þau til faglegrar skoðunar, að við gætum rætt þau á upplýstum og málefnalegum grunni og afgreitt þau í þinginu og í nefndum. Þessu hefur ekki verið sinnt, frú forseti, síður en svo. Um það frumvarp sem nú liggur til dæmis fyrir var það mikið ósamkomulag að meira að segja einn ráðherra greiddi á ríkisstjórnarfundi atkvæði gegn því að það yrði lagt fram. Annar ráðherra sýndi því hlutleysi sitt og greiddi ekki atkvæði með framlagningu þess en þetta eru alveg splunkunýir stjórnunarhættir sem tíðkast nú hjá þessari ríkisstjórn, að mál sem ríkisstjórnin kemur fram með sem heild þurfi ekki lengur fullan stuðning í ríkisstjórn. Þetta var líka svona með ESB-umsóknina, því máli var hleypt í gegnum ríkisstjórnina og breyttist um leið í einfalt þingmannamál. Ef ríkisstjórnin stendur ekki á bak við framlagningu frumvarpa breytist það í þingmannamál eða við skulum frekar segja ráðherramál. Þess vegna ber hæstv. forsætisráðherra ábyrgð á þessu frumvarpi til laga um Stjórnarráð Íslands.

Það leikur vafi á að þingmeirihluti sé fyrir þessu frumvarpi, eftir mínum bestu upplýsingum eru þingmenn Vinstri grænna á móti því óbreyttu og byggist andstaðan aðallega á því að hér er lagt til að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið iðnaðarráðuneytinu og stofna nýtt atvinnuvegaráðuneyti.

Ég er flutningsmaður nefndarálits 2. minni hluta og fer því yfir stöðuna, hvernig við þurfum að hlúa að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og þeim atvinnugreinum sem undir það heyra. Sjávarútvegurinn er sú atvinnugrein sem skapar okkur mestar gjaldeyristekjur og ég legg líka áherslu á að standa vörð um landbúnaðarmálin. Raunverulega gerðist það í hruninu sem enginn átti von á, íslenskir bændur breyttust í að vera gjaldeyrisvaraforði okkar Íslendinga því að í hruninu tæmdust hér allar gjaldeyrishirslur. Hefðum við verið komin upp á aðrar þjóðir um matvæli er ekki víst að það hefði verið hægt að sinna því. Hrunið sýndi okkur sannarlega hvað við þurfum sem eyland að standa vörð um landbúnaðarframleiðslu í landinu, hlúa að henni og standa vörð um bændur.

Þá langar mig aðeins að koma inn á skýrsluna sem lítið hefur verið rætt um í þessum umræðum, Eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu, skýrslu vinnuhóps sem forsætisnefnd fól að fara yfir núgildandi lagareglur um eftirlit þingsins með framkvæmdarvaldinu og leggja mat á hvort breytinga væri þörf. Hún er gefin út af Alþingi í Reykjavík árið 2009. Þetta er efnismikil skýrsla. Hér er fyrst rætt um þingeftirlit, svo um þróun þingeftirlits á Íslandi. Hér er líka nýmæli sem mætti taka betur fyrir til framtíðar og í nútíð, önnur lönd eru borin saman við Ísland. Hér er borin saman þróun þingeftirlits í Danmörku og Noregi sem er gott því að ég er sífellt að benda á að við þurfum að leita til annarra þjóða, sérstaklega Norðurlandanna, til að fá aðstoð við endurreisnina.

Þegar ég lagði fram frumvarp um lagaskrifstofu Alþingis hvatti ég mjög til þess að við fengjum erlenda sérfræðinga frá norrænu þjóðþingunum til að leiðbeina okkur við að stofna slíkar lagaskrifstofur við þingið vegna þess að svona skrifstofur eru reknar þar. Skemmst er frá því að segja að þau viðbrögð sem hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir sýndi við frumvarpi mínu voru þau að stofna sína eigin lagaskrifstofu og það í forsætisráðuneytinu sjálfu. Þó að góð mál komi fyrir þingið sem leitt gætu til styrkingar þess, bæði faglega og fjárhagslega, er því ekki sinnt heldur mokað undir teppið í forsætisráðuneytinu og ég efast um að það verði nokkur breyting á meðan þessi ríkisstjórn situr, því miður. Því heiti ég að komist Framsóknarflokkurinn í ríkisstjórn fljótlega verður sett á oddinn að styrkja löggjafann. Hér byrjar þetta allt og ráðherrar sækja vald sitt til þingsins undir venjulegum formerkjum en í frumvarpinu sem liggur fyrir er boðuð breyting á því.

Það þingeftirlit sem okkur þingmönnum er falið samkvæmt lögum og stjórnarskrá að hafa með höndum er samkvæmt skilgreiningu í skýrslunni með ríkisstjórn og opinberri starfsemi. Hugtakið þingeftirlit er einnig talið ná til þess með hvaða hætti aðrir aðilar framkvæma opinbera stefnu og innleiða löggjöf. Markmið þingeftirlits er samkvæmt bls. 13 í þessari skýrslu, með leyfi forseta, til dæmis „að tryggja að stjórnarframkvæmdin sé í samræmi við tilgang löggjafans, að bæta skilvirkni, árangur og hagkvæmni í verkum ríkisstjórnarinnar, að meta virkni opinberra áætlana, að koma í veg fyrir að framkvæmdarvaldið fari inn á valdsvið þingsins, að rannsaka misfellur í ráðsmennsku, embættisfærslur sem stjórnast af duttlungum eða geðþótta, misnotkun, óheiðarleika eða svik“.

Svo eru hér fleiri punktar sem ég ætla ekki að fara inn á en mig langar til að staldra við þann punkt sem mér finnst mikilvægastur, að koma í veg fyrir að framkvæmdarvaldið fari inn á valdsvið þingsins.

Hvað er framkvæmdarvaldið að gera hér með frumvarpi þessu? Það er með heiftarlegri frekju að fara inn á valdsvið þingsins með því að taka löggjafarvaldið úr höndum Alþingis og færa undir sjálft sig.

Svo er annar mikilvægur punktur, sá að rannsaka misfellur í ráðsmennsku, embættisfærslur sem stjórnast af duttlungum eða geðþótta, misnotkun, óheiðarleika eða svik.

Ég ætla ekki að staldra mjög við óheiðarleika og svik en bendi hins vegar á að embættisfærslur sem stjórnast af duttlungum eða geðþótta speglast í þessu frumvarpi. Forsætisráðherra er eftirlátið það að leggja af ráðuneyti, leggja af ráðherra, breyta ráðuneytum, færa til verkefni innan Stjórnarráðsins, algjörlega eftir eigin höfði — það er alvarlegasti hlutinn í þessu máli öllu saman — og án þess að spyrja Alþingi, án þess að spyrja löggjafann hversu mörg ráðuneyti eigi að starfa í landinu, hversu margir ráðherrar og hvaða hlutverk þeim er falið.

Í þessari skýrslu er varað við embættisfærslum sem stjórnast af duttlungum eða geðþótta ráðherra. Á ekkert að læra af þessu hruni? Hvað er hreinlega um að vera? Það er alveg sama hversu margar skýrslur eru skrifaðar, þessi ríkisstjórn þarf ekki að fara eftir því sem í þeim stendur. Þessi ríkisstjórn þarf ekki að fara eftir úrskurði Hæstaréttar, hæstv. forsætisráðherra þarf ekki að fara eftir úrskurði kærunefndar jafnréttismála og svona get ég lengi talið. Þessi ríkisstjórn keyrir áfram án þess að virða lög landsins og þess vegna spyr ég: Hvers vegna í ósköpunum dettur ríkisstjórninni í hug að ef hún fer ekki sjálf eftir þeim lögum sem Alþingi setur geri almennir borgarar það? Þessi ríkisstjórn hefur skapað ómælt slæmt fordæmi miðað við það sem hún hefur gengið í gegnum.

Hér var farið í gegnum tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um Icesave-hörmungina. Ríkisstjórnin situr sem fastast, samt hefur þjóðin talað skýrt. Skilaboð landsmanna voru: Þið fóruð fram með Icesave-málið af offorsi, við borgum ekki skuldir óreiðumanna, segið af ykkur.

Ríkisstjórnin situr hér sem fastast.

Svo kemur nokkuð á bls. 14 í Eftirliti Alþingis með framkvæmdarvaldinu sem ég held að ríkisstjórnin ætti að taka til sín. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Það þykir sjálfsögð regla í lýðræðisríki að valdi fylgi ábyrgð. Samkvæmt íslenskri stjórnskipan bera ríkisstjórn og einstakir ráðherrar ábyrgð gagnvart Alþingi …“

Þeir bera ábyrgð gagnvart Alþingi en hér er lagt til að þessari ábyrgð verði kippt úr sambandi því að Alþingi hefur ekkert lengur um það að segja hverjir eru ráðherrar eða hvaða heiti þeir bera.

Það sem ég hef líka svo oft farið inn á er að málefni okkar sem lands eru komin í miklar ógöngur vegna þess að hér hafa oft og tíðum, og undantekningarlítið, starfað meirihlutastjórnir. Meirihlutastjórnir koma sínum málum í gegnum þingið með meiri hluta þingmanna þó að jafnvel sé tæpur meiri hluti fyrir því en þess vegna verður stundum til það sem ég kalla ólög að því leyti að málin eru ekki ígrunduð og það þarf ekki að leita samninga við stjórnarandstöðu eins og gerist í þeim ríkjum þar sem minnihlutastjórnir eru tíðar. Auðvitað er langtum betri bragur yfir minnihlutastjórnum því að þá þarf að leita sátta í hverju einasta máli. Þá er ekki hægt að slengja fram í þinginu óvönduðum og illa ígrunduðum frumvörpum því að þá hefur ríkisstjórnin ekki meiri hluta fyrir þeim.

Þetta er nokkuð sem við þurfum að taka til endurskoðunar, að bæta hér vinnubrögð að því leyti að mál séu sett fram í sátt en ekki ósátt, í friði en ekki ófriði. Því miður hefur þessi ríkisstjórn valið ósáttina og ófriðinn í nánast öllum málum sem hafa komið til kasta þingsins. Það eru örfáar undantekningar.

Þetta eru stjórnunarhættir sem hæstv. forsætisráðherra kann sannarlega. Hæstv. forsætisráðherra hefur áður setið í ríkisstjórn og var þar ekki með ábyrgð á ríkisstjórninni sjálfri, var ekki forsætisráðherra, og höfum við þingmenn og landsmenn heyrt margar sögur af því hvernig valdi var beitt þegar viðkomandi var félagsmálaráðherra.

Ég kom aðeins inn á hlutverk forseta Alþingis í upphafi ræðu minnar og er farin að efast mjög um að forseti Alþingis eigi hreinlega að koma úr stjórnarliðinu. Forseti Alþingis hefur það vald að setja mál á dagskrá og stjórna forsætisnefnd. Þegar Alþingi kemur saman kýs það sér forseta og situr hann út kjörtímabilið, þ.e. ef ekki er boðað til kosninga. Ég hef velt fyrir mér hvort ekki ætti að kjósa forseta Alþingis beinni kosningu um leið og kosið er til Alþingis. Það er orðið ljóst miðað við þá reynslu sem ég hef fengið þessi rúm tvö ár sem ég hef setið hér á Alþingi að það virkar ekki hvernig þinginu er stjórnað. Hér eru þingmenn beittir ofbeldi, málefni sett á dagskrá í ósætti. Forseti Alþingis hefur oft og tíðum beitt valdi sínu.

Forseti Alþingis sækir ekki vald sitt til þingsins heldur til ríkisstjórnarinnar. Það er mjög óeðlilegt, frú forseti, því að forseti Alþingis á að vera forseti allra þingmanna og leita sátta við alla þingmenn en ekki aðeins ríkisstjórnina og ríkisstjórnarflokkana. Ég er mjög hugsi yfir þessu. Þessu verðum við á einhvern hátt að breyta með nýjum stjórnarskipunarlögum. Á meðan mál eru svona er ég ansi hrædd um að lítið gerist.

Frú forseti. Ég legg til í minnihlutaáliti mínu (Forseti hringir.) að þetta frumvarp verði fellt. Ég ítreka þá ósk mína og beini því til þingmanna að þeir felli þetta frumvarp.