139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:21]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, við deilum áhyggjum af þessum reglugerðarheimildum sem búið er að innleiða mikið í frumvörpum og lagasetningum hin síðari ár hér á landi þar sem löggjafinn er beinlínis að framselja vald, ekki bara til ráðherra heldur oft og tíðum til embættismanna í ráðuneytunum því að það eru oftast þeir sjálfir sem semja þessar reglugerðir. Ég tel að það sé orðið nokkuð alvarlegt vandamál hvernig lagasetningarvaldið er einhvern veginn að leka út úr þessu húsi.

Það er hlutverk forseta Alþingis að standa vörð um Alþingi og standa vörð um að lögbundin lagasetning sé ekki færð út úr þessu húsi. Þingmenn eru kosnir til þeirra til þeirra starfa að setja lög, 63 þingmenn samtals, sem eru kosnir fjórða hvert ár. Forseti Alþingis verður að fara að átta sig á því að það er hlutverk hans að standa vörð um lagasetninguna.

Varðandi hitt atriðið sem þingmaðurinn nefndi í síðustu mgr. 4. gr. þá benti ég á það í allsherjarnefnd að ef ágreiningur kemur upp um undir hvaða ráðuneyti hvert stjórnarmálefni heyrir eigi forsætisráðherra að skera úr um það. Ég benti líka á í þessu samhengi að þarna skapast mikil hætta á að einhverjir málaflokkar detti dauðir niður og enginn beri ábyrgð á þeim fyrr en allt er komið í óefni.

Það er líka alvarlegt mál að ef ágreiningur er á milli tveggja aðstoðarráðherra, eins og ég kýs að kalla það af því þeir eru nafnlausir — tökum sem dæmi að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vill ekki ganga í Evrópusambandið, utanríkisráðherra vill ganga í Evrópusambandið. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra stendur í lappirnar gagnvart þessu og þá getur hæstv. forsætisráðherra, samkvæmt þessu, gripið inn í atburðarásina og þess vegna fært málefni hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Forseti hringir.) undir verksvið utanríkisráðherra. Þetta er það sem ég talaði um að væri geðþóttaákvörðun (Forseti hringir.) sem ég vara mjög við.