139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin.

Það er eitt sem mig langar að reifa við hv. þingmann en það kom fram í andsvörum á milli hv. þingmanna Birgis Ármannssonar og Álfheiðar Ingadóttur. Í andsvörum þeirra var rædd sú breytingartillaga sem fellur að því að hugsanlega mættu fleiri en einn ráðherra vera í ráðuneyti. Mér þykir þetta mjög athyglisvert og mjög til þess fallið að skoða nánar. Ég tel skynsamlegra að geta sett ráðherra inn tímabundið, eða hvernig sem það er, frekar en vera alltaf í þessum húsnæðisbreytingum og tilfærslum á ráðuneytum sem slíkum því að það kostar gríðarlega mikla fjármuni.

Ég ræddi þetta aðeins í umfjöllun minni í gærkvöldi. Ég hafði reyndar ekki áttað mig á því að þessi breytingartillaga fæli þetta í sér. Mig langar því að kalla eftir afstöðu hv. þingmanns, hvort hún geti tekið undir það með mér að mjög athyglisvert væri að skoða þetta, og reyndar liggur það fyrir í breytingartillögu. Í fyrstu slær þetta mig þannig að þetta gæti verið mjög skynsamlegt, þ.e. það getur skapast eitthvert ástand og þá þarf að setja ráðherra inn. Ég hef til dæmis miklar áhyggjur af því þegar við erum að stækka ráðuneytin. Ég nefndi áðan að sparnaður lægi í því að vera ekki alltaf að breyta einhverju húsnæði. Þá mætti líka hugsa sér að fleiri en einn ráðherra færi í viðkomandi ráðuneyti sem tæki að sér ákveðna málaflokka innan ráðuneytisins — þá væri hugsanlega ekki verið að framselja eins mikið vald með því að leggja of stór og mikil verkefni á herðar eins ráðherra sem mundi þar af leiðandi fela embættismönnunum í ráðuneytinu að vinna ákveðin verk. Það væri að mínu mati meira framsal á valdi en að hafa tvo (Forseti hringir.) ráðherra í ákveðnu ráðuneyti.