139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:02]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Við höldum áfram að ræða frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands. Þessi umræða hefur staðið yfir í dágóðan tíma og sitt sýnist hverjum um það. Ég er mjög ánægð með það vegna þess að mér finnst umræðan hafa verið góð og efnismikil og get svo sannarlega ekki tekið undir það sem ýmsir úr stjórnarmeirihlutanum hafa kvartað yfir, að hér hafi skort á innihald.

Stjórnarráð Íslands og breytingar á lögum um það eru nefnilega mál sem þarf að ræða vel. Þetta er eitt af þessum málum eins og stjórnarskráin sem varðar okkur öll sem við eigum að fá að ræða, fá að hafa skoðanir á og helst að ná saman um og ná samkomulagi um. Þess vegna hryggir það mig að við séum hér að ræða þetta mál og getum ekki sest niður og fundið út úr því hvað það er sem við erum ósammála um. Eins og með öll mál er sumt í þessu ágætt, annað meinlaust og maður gerir ekki athugasemdir við en sum atriði eru verri. Hér hefur mikið verið rætt um 2. gr. frumvarpsins og það valdaframsal frá þingi til forsætisráðherra sem hefur verið mjög gagnrýnt. Tek ég undir þá gagnrýni. Margt hefur verið sagt um markmiðin með þessu, þau eru öll góð og gild, bæta vinnubrögð, stjórnsýsluna og störf og starfshætti ráðherra og ríkisstjórnar og Stjórnarráðsins. Það eru markmið sem við getum öll sannarlega tekið undir. Við erum hins vegar ósammála um nokkra hluti.

Ástæðan fyrir þessum breytingum er meðal annars sögð skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis. Það er talað um að það hafi sýnt sig við efnahagshrunið að stjórnsýslan hafi brugðist, að það hafi skort á formfestu, ekki hafi verið haldnar fundargerðir og annað slíkt. Það er margt sem má eflaust gagnrýna en ég get ekki tekið undir með hv. þm. Álfheiði Ingadóttur sem fullyrti áðan að að hennar mati hefði Stjórnarráðið okkar, eins og ég skrifaði hér eftir henni, ekki verið gott.

Ég er því aldeilis ósammála. Ég átti þess kost að vinna í Stjórnarráðinu í þremur ráðuneytum um níu ára skeið sem aðstoðarmaður ráðherra. Reynsla mín af Stjórnarráðinu er alls ekki sú að það hafi ekki verið gott. Þar má margt bæta eins og alls staðar en mér finnst ómaklega vegið að Stjórnarráðinu, starfsmönnum þess og ríkisstjórnum fyrri tíðar, með því að segja að það hafi ekki verið gott. Ég fullyrði að einmitt í hruninu hafi komið í ljós helstu eiginleikar Stjórnarráðsins og okkar Íslendinga sem þjóðar sem við megum aldrei gleyma, það að þegar eitthvað bjátar á vindum við okkur í verkin. Það var algjörlega augljóst við það áfall hversu ósérhlífnir og duglegir starfsmenn Stjórnarráðsins, ríkisstjórnin og þeir sem þar störfuðu voru á þeim tíma.

Helsta efnisbreytingin í þessu frumvarpi er það sem felst í fyrrnefndri 2. gr., að fallið sé frá því að telja ráðuneytin tæmandi upp og að ákvörðunarvaldið um það hvaða ráðuneyti skuli starfrækt hvíli hjá stjórnvöldum á hverjum tíma. Mér finnst felast í þessu mótsögn vegna þess að á sama tíma er sagt að það hafi skort á formfestu og að hana þurfi að auka. Svo er lagt til að það vald sem stjórnvöld höfðu og hafa í dag verði takmarkað. Það er óyggjandi að meirihlutastjórn í landinu hefur slíkt vald. Sagan hefur sýnt sig að stjórnvöld hvers tíma geta með lögum breytt starfsháttum og skipulagi í Stjórnarráðinu. Nú er verið að leggja til að frá því verði horfið og að hægt verði að taka þessa ákvörðun í Stjórnarráðinu sjálfu. Því er ég mótfallin.

Þegar talað er um að formfesta sé nauðsynleg finnst mér nauðsynlegt að tryggja að löggjafinn geti tekið þetta til umfjöllunar, fengið á því utanaðkomandi álit og greitt um það atkvæði. Það á ekki að hræðast það. Þetta er nokkuð sem á ekki að þurfa að koma í veg fyrir pólitíska stefnumótun og á ekki að þurfa að hindra vilja og áform ríkjandi stjórnvalda hverju sinni.

Mig langar til að grípa niður í umsögn frá Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, með leyfi virðulegs forseta:

„Með frumvarpinu er gerð tillaga um að forsætisráðherra, þ.e. í framkvæmd oddvitar ríkisstjórnarflokkanna, öðlist heimild til að ákveða tölu ráðuneyta og skipta með þeim verkefnum, án atbeina löggjafans. Í III. kafla almennra athugasemda við frumvarpið segir að gildandi lög, sem girða fyrir þetta með tæmandi upptalningu á ráðuneytum, hafi „dregið úr möguleikum ríkisstjórna til að laga skipulagið að breyttum áherslum“. Auðvelda skuli Stjórnarráðinu að „laga sig að breyttum þörfum og áherslum við pólitíska stefnumörkun sem aftur ýtir undir skilvirkari undirbúning stjórnarframkvæmdar í hverjum málaflokki“.

Þessi orð orka mjög tvímælis að því leyti að reynsla síðustu ára kennir að ríkisstjórnarflokkunum er hægur leikur að breyta skipulagi Stjórnarráðsins. Því verður ekki séð að mikla þýðingu hafi, nema frá lagatæknilegum sjónarmiðum, hvort breytingar á ráðuneytaskipan verði ákveðnar með forsetaúrskurði, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, eða með löggjöf.“

Síðan eru taldar upp breytingar sem hafa verið gerðar á ráðuneytaskipan frá árinu 2007. Að minnsta kosti á annan tug nýrra ráðuneyta hefur orðið til vegna sameiningar og sú ályktun dregin að ekki hafi verið neitt tiltökumál að breyta skipan ráðuneyta miðað við núgildandi fyrirkomulag.

Síðan heldur áfram og þetta þykir mér mjög mikilvægt:

„Sameining í ríkisrekstri, hvort heldur hún varðar ráðuneyti eða stofnun, þarf að vera vel ígrunduð og undirbúin. Í því tilliti er mikilvægt að gerð sé frumathugun á ávinningi hennar áður en ákvörðun er tekin. Þar þarf m.a. að greina verkefni sem sameina á, meta skipulega kosti og galla ólíkra leiða og álitamála, gera rekstraráætlun fyrir nýja stofnun eða nýtt ráðuneyti, skilgreina framtíðarsýn starfseminnar og markmið og meta hvað gera þurfi svo að hún standi undir væntingum. Að mörgu leyti er erfitt að fjölyrða um áhrif af nýlegum breytingum á ráðuneytaskipan, enda um langtímaverkefni að ræða. Í nýlegum skýrslum Ríkisendurskoðunar um sameiningu í innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti er bent á ýmsa þætti í þessu sambandi. Stofnunin telur t.d. að áætla verði betur kostnað af sameiningu og að styðja verði áfram við starfsfólk í breytingarferlinu, m.a. vinna eftir áætlun sem stuðlar að heildstæðri og öflugri vinnustaðamenningu.“

Þarna tala starfsmenn Stjórnarráðsins, þeir sem gerst þekkja til starfseminnar í Stjórnarráðinu fyrir utan þá pólitísku starfsemi sem þar fer sannarlega fram líka. Ég hvet hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkana á þessu þingi til að hlusta eftir svona ábendingum. Þetta þykir mér mjög málefnalegt.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði áðan að henni þætti ástæðulaust að liggja yfir málum sem væri búið að leggja mikla vinnu í. Þegar hún var spurð hvort það væri eitthvað efnislegt í þessu frumvarpi sem ylli því að það yrði að klára þetta mál hér á septemberþinginu sagði hún að það væri ástæðulaust að liggja yfir máli sem er tilbúið.

Í fyrrgreindri umsögn er nákvæmlega verið að benda á að það þarf að liggja yfir sumum málum. Svona breytingar þurfa tíma. Svona breytingar þurfa vandlega vinnu. Um svona breytingar þarf að ná samstöðu. Ef það er ekki ástæða ein og sér til að hinkra með þetta og freista þess að við náum hér saman lendingu sem við getum öll fallist á, mál sem starfsmenn Stjórnarráðsins og fjölmargir aðrir umsagnaraðilar hafa gert við athugasemd, er ég illa svikin. Mér finnst næg ástæða til að fara varlegar og hlusta á slík rök.

Það er talað um formfestu og sveigjanleika í sömu setningunni og mér þykir það ákveðin mótsögn. Er það formfesta í stjórnsýslunni að gera endalausar breytingar á þessum lögum? Eins og rakið var áðan er frá árinu 2007 búið að breyta fjölmörgum ráðuneytum, og lögunum um Stjórnarráð Íslands hefur verið breytt þrisvar sinnum í tíð þessarar ríkisstjórnar. Er það endilega formfesta? Er það til hagsbóta fyrir Stjórnarráðið og stjórnsýsluna að breyta sífellt þessum lögum? Ég held ekki. Ég held að með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þeim skýrslum sem hér hefur verið vitnað til sem grunns og leiðbeiningar fyrir þessar breytingar hafi enginn verið að kalla eftir þessu. Ég held þvert á móti að það sé verið að kalla eftir skýrari ábyrgð, eftir því hvaða ráðherra ber ábyrgð á hvaða málaflokki og hvaða skyldur sérhver ráðherra hefur og ber ábyrgð á. Þetta finnst mér ekki verða neitt skýrara með þessu frumvarpi. Ég sé ekkert í þessu frumvarpi sem bætir úr þessu, a.m.k. ekki þær breytingar á 2. gr. sem hér eru lagðar til.

Það eru mörg falleg orð á blaði, að stuðla að bættum og faglegum starfsháttum, allt saman mjög gott, en svo á maður eftir að sjá hvort þetta tekst og hvort þetta verður eitthvað meira en falleg orð á blaði.

Eins og ég sagði áðan vann ég sem aðstoðarmaður ráðherra í níu ár og tel mig þekkja Stjórnarráðið ágætlega, tel mig þekkja til starfs aðstoðarmanns og þeirrar pólitísku stefnumótunar sem fer fram í ráðuneytum og á sannarlega að fara þar fram. Ég er sammála því meginmarkmiði sem kemur fram um að það væri gott að hnykkja á pólitískri ábyrgð og pólitísku stefnumótunarhlutverki ráðherrans með því að auka við pólitísku deildina í ráðuneytinu ef svo mætti segja.

Ég er ekki viss um að þessi leið hér, að bæta við ráðgjafa og setja svo inn einhverja farandaðstoðarmenn, bæti nokkuð í þessu samhengi. Mér finnst fáránlegur tími að gera þetta núna þegar ætti að draga úr útgjöldum ríkisins alls staðar þar sem því verður við komið og verið er að draga úr velferðarþjónustu, heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu úti um allt land. Mér finnst algjörlega fáránlegt að ætla sér að auka kostnað í stjórnsýslunni með þessum hætti. Í þeirri vinnu sem á eftir að vinna, og maður sér að það á eftir að vinna útfærsluna við þetta, ættu menn frekar að hugsa um hvernig hægt er að gera þetta með sama mannskap og þá fækka á móti. Í sumum ráðuneytum er aðstoðarmaður og blaðafulltrúi eða upplýsingafulltrúi og ráðgjafi og ég veit ekki hvað þetta heitir allt saman, alls konar sérfræðingar. Þessi ríkisstjórn hefur verið ákaflega ötul við að raða aðstoðarmönnum inn í ráðuneytin en þó verður að gera greinarmun á því. Við sjáum að það sem er pólitískt starf í einu ráðuneyti er það ekki endilega í öðru. Mér dettur strax í hug upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins sem hefur starfað þar um nokkurra ára skeið. Ég mundi aldrei tala um hana sem pólitískt skipaðan upplýsingafulltrúa vegna þess að ég held að hún hafi sýnt það og sannað að hún er þarna algjörlega á réttum stað og sannaði sig ekki hvað síst í atinu í hruninu án þess að ég vilji taka einhvern einn einstakling út. Ég nefni hana þó sérstaklega vegna þess að í öðrum ráðuneytum starfa upplýsingafulltrúar sem eru klárlega ráðnir inn á pólitískum forsendum og eru ekkert annað en aðstoðarmenn í þeim skilningi að vera í pólitísku hlutverki.

Þá þarf maður að spyrja hver sé að byrja í þessari vinnu. Ætlar ríkisstjórnin að þessum lögum samþykktum að bæta við þetta eða á að meta hverjir eru sannarlega pólitískir og hverjir sannarlega ekki? Þetta er svo óljóst og svo fókuslaust að ég held að þessi pólitíska stefnumótun sem kallað er eftir þurfi ekkert endilega að fylgja og styrkjast í kjölfarið. Það væri miklu nær, eins og rætt hefur verið um hér, að líta til reynslu annarra landa. Í Bandaríkjunum fer hálft stjórnkerfið út við stjórnarskipti. Efra lag stjórnsýslunnar, þeir sem bera ábyrgð á stefnunni, fylgir þeim stjórnarherrum sem koma og fara. Þetta gerir það að verkum að pólitíska stefnumótunin verður alveg skýr og klár. Við höfum oft rætt þetta og við ræddum þetta innan stjórnsýslunnar þegar ég starfaði þar. Það eru margir kostir við þetta, en á móti kemur að Ísland er mjög lítið samfélag. Þetta kannski virkar ekki í smæðinni. Það var oft horft til þess. Ég kem aftur að því að það var kallað eftir pólitískri ábyrgð. Þá er ég sammála því meginmarkmiði að það þurfi að styrkja það, en ég er dálítið hugsi yfir þessari leið.

Síðan vil ég líka skoða þá fjölgun sem lögð er til á aðstoðarmönnum á þessum tímapunkti í hagsveiflunni, svo maður noti staðlað orðalag, á sama tíma og vitnað er í sömu skýrslurnar, skýrslur rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar, um að efla þurfi og styrkja Alþingi. Á sama tíma og þarna er lögð til fjölgun pólitískra aðstoðarmanna í kringum ráðherrana og að styrkja þannig framkvæmdarvaldið — gagnvart löggjafarvaldinu vil ég segja — höfum við orðið vitni að því frá hruni að hér hefur markvisst verið dregið úr kostnaði. Við höfum verið dugleg við að skera okkur sjálf niður. Hvað var það fyrsta sem var látið gossa við efnahagshrunið? Jú, það voru pólitískir aðstoðarmenn þingmanna. Engum hefur dottið í hug, a.m.k. hefur það hvergi verið orðað við mig, að endurvekja þær stöður á þessum tímapunkti. Þó vil ég segja að það er nauðsyn að gera það, ég ætla að halda því fram hér og stend við það, vegna þess að hér er einnig sífellt verið að væna okkur þingmenn um að vera illa undirbúin, að hér fari óvönduð lagasetning í gegn og við náum ekki að sinna öllum okkar skyldum. Ég tel þess vegna bráðnauðsynlegt fyrir okkur þingmenn að fá aðstoðarmenn eða aðstoðarmann til að hjálpa okkur við að sinna störfum okkar sem best við getum. Mér dytti hins vegar aldrei nokkurn tímann í hug að leggja það til núna, ekki frekar en mér dettur í hug að leggja til fjölgun pólitískra aðstoðarmanna í Stjórnarráðinu á þessum tímapunkti.

Þetta er einfaldlega framtíðarmúsík. Það vekur athygli að meiri hluti allsherjarnefndar fann það hjá sér að koma með breytingartillögu sem breytti því sem var lagt fyrir í frumvarpinu um að fjölgun aðstoðarmanna kæmi ekki til framkvæmda fyrr en að afloknum næstu kosningum. Meiri hluti allsherjarnefndar telur hins vegar að ekki megi bíða með þetta, bætir um betur og fjölgar um þrjá frá því sem var í frumvarpinu þannig að kostnaðarmatið á þessu, í kringum 100 milljónir, má ætla að fari upp í 120–130 milljónir. Mér finnst hreint óskiljanlegt að á sama tíma og við horfum á eftir þjónustu sem við vildum gjarnan geta veitt í mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfinu sjáum við þetta lagt til hérna.

Svo ég komi aðeins aftur að Alþingi var það meira að segja þannig að aðstoðarmennirnir sem ég nefndi að hefðu verið skorið niður um leið og hrunið varð hérna í upphafi voru ekki fyrir alla þingmenn. Nei, við breytingu á kjördæmaskipan árið 2003 þegar höfuðborgarþingmönnum var fjölgað og landsbyggðarþingmönnum fækkað en kjördæmin jafnframt stækkuð var það sett í þann pakka, svo að segja, að komið skyldi á kerfi pólitískra aðstoðarmanna fyrir landsbyggðarþingmennina. Kjördæmabreytingin var 2003 en þessu var svo komið á í þinginu með breytingum á þingsköpum 2007 sem mig minnir að hafi tekið gildi í ársbyrjun 2008.

Þrír landsbyggðarþingmenn í landsbyggðarkjördæmunum þremur skiptu með sér einum aðstoðarmanni. Það var rúmlega 30% staða aðstoðarmanns fyrir hvern þingmann þannig að við erum að tala um mjög lítið starf miðað við það sem hér er lagt til.

Svo er annað í þessu samhengi sem ég vek athygli á, í breytingartillögu við 4. gr. er lagt til að fyrri málsliður 2. mgr. falli brott: „Hvert ráðuneyti skal óskipt lagt til eins og sama ráðherra.“ Við höfum velt því fyrir okkur vegna þess að það er ekki útskýrt í greinargerðinni hvað þarna er eiginlega átt við. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði í andsvari áðan við hv. þm. Birgi Ármannsson að á mannamáli þýddi þetta að í hverju ráðuneyti gætu verið fleiri en einn ráðherra. Hún nefndi sérstaklega dæmi frá Noregi þar sem tveir ráðherrar eru í utanríkisráðuneytinu, þar af annar þróunarmálaráðherra.

Mér finnst þetta mjög opinn tékki. Með hversu marga ráðherra ætlum við að enda? Þá dettur mér aftur formfestan í hug, forsætisráðherra ákveður væntanlega á skrifstofu sinni hversu margir undirráðherrar eiga að vera eða hversu margir ráðherrar í hverju ráðuneyti. Þessi þróun sem við erum að sjá er eins og harmonikka. Við sjáum heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytið sameinað í velferðarráðuneyti undir þeim formerkjum að það þurfi að sameina þessa málaflokka, það sé mikil skörun og það sé svo mikil hagræðing af þessu. Hvernig verður þetta þá? Verður þá ráðherra öldrunarmála ráðherra félagsmála og ráðherra málefna fatlaðra? Maður sér ekki fyrir sér hvernig þetta endar og alla formfestu skortir í því hvernig við eigum að geta séð þetta fyrir, hvernig við eigum að vita hvað við erum að fara að vinna með.

Innanríkisráðuneytið er annað dæmi. Þar er óneitanlega búið að setja mjög marga málaflokka undir sama hatt. Verðum við þá komin með nokkra ráðherra í innanríkisráðuneytinu? Hver ber ábyrgðina? Er þá einn yfirráðherra, aðrir undirráðherrar? Mæta allir þessir ráðherrar á ríkisstjórnarfundi eða eru þeir eins og skrifstofustjórar? Hver ber pólitísku ábyrgðina? Hversu marga aðstoðarmenn þarf fyrir allan þennan ráðherrafjölda og hversu mikill kostnaður verður af þessu öllu saman?

Þá kem ég að því sem mig furðar mjög mikið, fylgiskjali III með frumvarpinu, kostnaðarmatinu sem er ekki einu sinni heil blaðsíða. Það er tæp blaðsíða um þetta stóra og mikla mál. Niðurstaða fjárlagaskrifstofunnar er, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðuneytið telur að lögfesting frumvarpsins muni ekki hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, ef frá er talin sú breyting sem heimilar ráðherra að ráða einn aðstoðarmann og einn ráðgjafa í hvert ráðuneyti í stað eins aðstoðarmanns svo sem verið hefur. Miðað við tíu ráðuneyti gæti sá kostnaður orðið allt að 100 millj. kr. á ári.“

Nú er búið að fella út með breytingartillögum meiri hlutans fjölda ráðuneyta þannig að þau gætu orðið fleiri en tíu. Þessi tala gæti hækkað af þeim sökum. Nú er búið að taka út að hver ráðherra skuli hafa eitt ráðuneyti óskipt fyrir sig þannig að þar gætum við horft á kostnaðarauka. Ég fer fram á það, frú forseti, að það verði óskað eftir nýju kostnaðarmati miðað við breytingartillögur meiri hlutans. Ég tel fullgild rök fyrir því að óska eftir þessu vegna þess að, eins og ég var að lýsa, bara það litla atriði sem þarna er lagt til gæti haft í för með sér ómældan kostnað, að ég tala nú ekki um þegar farið er að finna starfsaðstöðu og húsnæði og allt það sem fylgir óneitanlega nýjum starfsmönnum. Þetta þarf að skoða betur og mér finnst með ólíkindum að það skuli ekki hafa komið nýtt kostnaðarmat miðað við breyttar forsendur.

Ég ætla að halda mig aðeins við málefni aðstoðarmanna, mér eru þau hugleikin eftir að hafa gegnt þessu starfi. Ég ítreka að ég ber mjög hlýjan hug til þessa starfsheitis og vil veg aðstoðarmanna sem mestan. Þarna eru nokkur ákvæði sem eiga beint við um aðstoðarmenn sem ég hreinlega skil ekki eftir að hafa gegnt þessu starfi. Til dæmis er gert ráð fyrir því í 18. gr. að ráðherra skuli setja ráðuneytisstjóra, aðstoðarmanni ráðherra og ráðgjafa erindisbréf þar sem meðal annars skal kveðið á um starfssvið þeirra og starfsskyldur. Ég held að það þurfi ekki að vera aðstoðarmaður nema kannski í um það bil viku til að sjá að þetta er ógjörningur. Það er ekki hægt að setja aðstoðarmanni ráðherra með þessum hætti erindisbréf sem á að vera tæmandi listi yfir verkefni í því starfi. Ég leyfi mér að fullyrða það. Eðli starfsins er að þetta er pólitískur aðstoðarmaður og ráðgjafi, samverkamaður ráðherrans, og starfið mótast að sjálfsögðu af þeirri persónu sem gegnir því. Eftir hvaða eiginleikum sækist ráðherrann? Hvar vantar hann þekkingu í sínu starfi? Ég get tekið dæmi um hagfræðinginn sem er fjármálaráðherra með heilt fjármálaráðuneyti af hagfræðingum, hann vantar kannski ekki hagfræðing, hann vantar einhvern með almenna skynsemi. Við getum — (Gripið fram í: Mjög lítið …) nei, til að skýra þetta tek ég fram að hann vanti almenna þekkingu á öðrum málum, ekki endilega sjónarhorn hagfræðingsins svo ég orði þetta betur.

Hver á að skrifa erindisbréfið? Ég spurði áðan hv. þm. Álfheiði Ingadóttur sem reynist hafa svör á reiðum höndum við flestu sem maður spyr og hefur yfirgripsmikla þekkingu á þessum málum, (Gripið fram í: Öllum málum.) öllum málum. Hún gat ekki svarað eða vék sér undan því. Er það forsætisráðherra sem skrifar erindisbréf fyrir alla aðstoðarmenn? Er þetta staðlað erindisbréf sem allir aðstoðarmenn fá? Eða er það viðkomandi ráðherra sem skrifar erindisbréf fyrir sinn ráðuneytisstjóra og sinn aðstoðarmann? Mér finnst að það eigi að gera mikinn greinarmun á starfi ráðuneytisstjóra og aðstoðarmanns. Hjá ráðuneytisstjóranum á formfestan að vera algjör. Þar er festan í ráðuneytinu, þar er starfsmaðurinn sem sér marga ráðherra koma og fara og viðheldur reynslunni og þekkingunni á málunum og skrifar fyrir hönd ráðherra undir bréf og erindi, nokkuð sem aðstoðarmaður gerir ekki vegna þess að aðstoðarmaðurinn er ekki partur af stjórnsýslunni með sama hætti.

Mér finnst þetta meðal atriða í þessu blessaða frumvarpi sem maður hnýtur um, þetta gengur ekki upp. Það er verið að setja eitthvað svona fram miðað við einhver skipurit og enginn hugsar um hvernig þetta kemur út í framkvæmd. Ég legg til að þetta verði skoðað áfram.

Það sem skiptir náttúrlega miklu máli í þessu samhengi er að þessar endalausu breytingar á Stjórnarráðinu, eins og hefur verið rakið hérna, laga einar og sér ekki vandann sem bent er á í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og öllum þeim skýrslum sem við höfum fengið gerðar eftir hrunið. Það er ekki nóg að breyta skipuritinu til að laga það sem aflaga fer. Þetta minnir mig á R-listann. Einu fréttirnar sem standa upp úr í minningunni um R-listann voru breytingar á skipulaginu í Ráðhúsinu. Það var alltaf verið að hnika til skipulagi. Það var verið að búa til stöður og nú sér maður að meiri hluti borgarstjórnarinnar í Reykjavík er byrjaður á þessu aftur. Nú er verið að setja einhver embætti þar, endurskilgreina störfin, taka upp gömul heiti og leggja af önnur. Það er einfaldlega ekki nóg til að ná þeim markmiðum sem þarf að ná. Mér finnst það einkenna vinnubrögðin í þessu máli að það er ekki reynt að girða fyrir nein vandkvæði heldur eru þetta falleg orð á pappír. Það sést náttúrlega á því hvernig haldið var á málinu innan ríkisstjórnarinnar, það komst ekki út úr allsherjarnefnd fyrr en var farið að prútta og plotta við þingmenn innan og utan stjórnar til að hver fengi sitt svo hægt væri að koma málinu fram.

Í dag hefur mikið verið rætt um muninn á mikilvægum og brýnum málum. Ég geri ekki lítið úr því að þetta mál er mikilvægt. Það skiptir máli að vera með stjórnsýslu sem virkar, sem er „effektíf“ ef ég má sletta aðeins, að formfestan sé við lýði og að þeir sem þurfa að hafa samskipti og viðskipti við embættismenn, stjórnsýsluna og ráðuneyti viti að hverju þeir ganga. Á það að skipta máli hvort ráðherrann sem tekur á móti beiðni frá kínverskum fjárfesti sé hlynntur eða andvígur fjárfestingunni? Nei, það á að vera ferli sem allir ganga inn í og lagarammi og jafnræði milli þegnanna sem þurfa að leita til stjórnsýslunnar. Það er það sem skiptir máli. Það finnst mér ekki vera undirliggjandi markmið í þessum lagabreytingum.

Efnislegar athugasemdir okkar sjálfstæðismanna koma vel fram í mjög ítarlegu nefndaráliti fulltrúa okkar í hv. allsherjarnefnd, Birgis Ármannssonar og Sigurðar Kára Kristjánssonar. Þar er farið lið fyrir lið yfir greinarnar. Ég hef ekki gert það hér, enda vinnst ekki tími til þess. Þeir fara hins vegar vel og rækilega yfir einstakar greinar og eins og þar kemur fram er fallist á sum ákvæðin en önnur eru þannig að menn gera alvarlegar athugasemdir við þau.

Í ljósi þess hvar við erum hér á þessu septemberþingi, við erum búin að verja ágætistíma í að ræða þetta mál og það er margt eftir órætt eins og sést á mælendaskrá, hvet ég hæstv. forsætisráðherra til að sýna stærð sína sem forsætisráðherra. Það var sagt hérna í dag að góðir leiðtogar gætu tekið því þegar þeir yrðu undir. Hér er pattstaða, ekki bara í þessu frumvarpi heldur í þeim málum sem við eigum eftir að afgreiða á þinginu. Fjölmörg mál sem allir eru sammála um að afgreiða og hafa verið unnin vel í nefndum þingsins líða fyrir þetta. Það má kalla það öllum þeim nöfnum sem menn kjósa. Hv. þm. Mörður Árnason hefur vænt okkur um að vera í málþófi og hefur miklað það svo fyrir sér að (Gripið fram í.) hann hefur talið það 200–300 klukkustunda langt þegar við erum búin að vera hér kannski í 25 klukkustundir ef báðar umræður þessa máls eru taldar. Það er ekki það sem skiptir máli. Það sem skiptir máli er að með einföldum hætti er hægt að greiða úr þeirri flækju sem komin er upp á þinginu. Forsætisráðherra ætti að sýna í verki hversu stór hún getur verið, það þarf að kippa í burtu 2. gr. og við getum þá unnið að því að leiða allt hitt til lykta þannig að við getum klárað þetta, verið okkur á þinginu til sóma og tryggt að þær breytingar sem stjórnarmeirihlutinn leggur áherslu á að verði gerðar komist í framkvæmd.

Þetta er mitt innlegg í þá stöðu sem við erum í núna. Ég hef farið yfir þau atriði sem ég geri helst athugasemdir við en vísa annars í bráðgott nefndarálit þeirra félaga úr hv. allsherjarnefnd. Ég tel að þetta mál sé þannig vaxið að ef við leggjum okkur fram getum við náð um það samkomulagi. Það er eins með þetta og svo margt annað, það þarf tvo til og nú bíðum við spennt eftir því hvort hægt sé að finna á þessu einhverja viðunandi lausn.