139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:43]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Við ræddum svolítið í dag hvernig þingsköpin skilgreina andsvör. Ef mig ekki misminnir var það einmitt hinn sjálfskipaði siðapostuli og sérfræðingur Alþingis, hv. þm. Mörður Árnason, sem gaf fólki einkunn eftir því hvernig andsvör þeirra voru og hvort þau voru það sem hann kallaði sýndarandsvar eða eitthvað sem honum var meira þóknanlegt. (Gripið fram í.)

Ég vil gera athugasemd við andsvar hv. þm. Marðar Árnasonar vegna þess að ég held, og ég vona að ég sé ekki að væna þingmanninn um eitthvað sem ekki er satt, að hann hafi ekki hlustað á ræðuna mína. Hann var ekki í salnum þegar ég flutti 40 mínútna ræðu, heldur skaust hann inn og út úr salnum. (Gripið fram í.) Ég held að hann hafi ekkert verið að hlusta en nú bíð ég spennt eftir einkunnargjöf siðapostulans og skólameistarans sem er alltaf tilbúinn með matið. Ég bíð spennt eftir því að heyra hvaða skoðanir hann hefur á þeim efnisatriðum sem ég ræddi. Hvað finnst hv. þingmanni t.d. um það sem ég sagði um erindisbréf til aðstoðarmanna ráðherra? Hver á að gefa út erindisbréf fyrir aðstoðarmenn ráðherra? (Gripið fram í.) Hv. þingmaður er nefndarmaður í allsherjarnefnd. Ég trúi ekki öðru en að hann vilji taka rökræðu um eitthvað sem er í frumvarpinu (Gripið fram í.) en ekki að koma með ómálefnalegt sýndarandsvar sem er fullkomlega út í hött, svo ég noti nú orðfæri hv. þingmanns sem ég er farin að gruna um að sé í einhverju sýndarmálþófi.