139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:48]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, það er rétt hjá hv. þingmanni, ég fjallaði ekki mikið um 4. og 5. gr. að frátalinni þeirri breytingartillögu meiri hlutans um að það falli út að hvert ráðuneyti skuli lagt til eins og sama ráðherra. Ég fjallaði töluvert um það í ræðu minni. Ég deili áhyggjum hv. þingmanns vegna þessa og ég sé ekki hvernig þessar greinar eiga að bæta formfestu stjórnsýslunnar. Það var helsta gagnrýni mín á málið í heild. Þvert á móti er verið að færa valdið frá þinginu til forsætisráðherra. Forsætisráðherra gæti jafnvel fært ákveðin málefni á milli ráðuneyta eftir geðþótta, þótt ég sé ekki að væna núverandi forsætisráðherra um að gera það, ef t.d. sú staða kæmi upp að sá ráðherra sem með málið færi væri ekki sammála forsætisráðherranum í einu og öllu.

Þegar ég segi: Leysum málið, byrjum á því að taka 2. gr. út, er það nákvæmlega þetta sem ég á við. Byrjum á því, svo skulum við ræða saman um önnur atriði sem við þurfum að gera breytingar á til að lenda þessu máli.

Ég held að það sé einmitt vandamálið í þessu máli eins og í svo mörgu öðru sem frá þessari ríkisstjórn kemur að á endasprettinum, þegar allt er komið í hönk, er sest niður og reynt að finna út hversu langt þurfi að ganga til þess að hægt sé að ljúka málum og ljúka þinginu. Hið pólitíska samráð, t.d. samráð um lög um Stjórnarráð Íslands, á milli stjórnmálaflokkanna þarf að vera fyrir hendi miklu fyrr í ferlinu. Það er mjög gagnrýnisvert í þessu öllu saman að svo skuli ekki vera.