139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg sérkafli um hvernig forsætisráðherra er látinn svara fyrir það að vera forsætisráðherra. Nú stendur yfir 2. umr. og ég er á svipuðum slóðum þar.

Í lögum um Stjórnarráðið, nr. 73/1969, eins og þau eru í dag, er setning í 8. gr. sem ég ætla að lesa endinn á, með leyfi forseta. Þar er talað um að stjórnarmálefni heyri undir ráðuneyti eftir ákvæðum reglugerðar o.s.frv.:

„… enda sé þess jafnan gætt, að ráðuneyti lúti málefni, sem eðli sínu samkvæmt eiga þar heima, sbr. 4. gr.“

Það er þá búið að setja reglugerð um hvar málefnin eru. Auðvitað er reglugerð reglugerð, það er ljóst, en það er svolítill munur á því að talið sé upp með skýrum hætti hvar málefnin eru, hvar þau eiga heima í stað þess að forsætisráðherra, sama hver það er, geti tekið að sér ákveðin mál ef honum finnst viðkomandi ráðherra ekki standa sig nógu vel. Ég nefni málefni sem er heitt í umræðunni, Grímsstaðir á Fjöllum; ef hæstv. innanríkisráðherra er ekki talinn standa sig nógu vel í því máli geti forsætisráðherra farið með málið í ríkisstjórn og talið eðlilegt að það málefni fari undir forsætisráðuneytið til að leysa það fljótt og vel.

Það verður að segjast eins og er að það vantar aðeins útskýringar á einhverjum hlutum hér. Samkvæmt þessum lögum, alla vega eins og ég skil þau, getur forsætisráðherra ákveðið slíkt. Væntanlega yrði einhver smáuppsteytur í ríkisstjórninni, mér þætti það ekki ótrúlegt, en ef ríkisstjórnin væri í sömu stöðu þá og hún er núna mundi það bara vera látið eiga sig því að það er sama hvað kemur upp, forsætisráðherra hefur sitt fram.

Það sem mér finnst koma skýrt fram er lausung og tilflutningur á valdi til forsætisráðherra. Það snýst ekki um einstaka ráðherra eða neitt slíkt. Það snýst um það að verið er að minnka festuna.