139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:06]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr mig um þessa breytingartillögu sem ég endaði á að ræða mjög stutt af því að tíminn var að verða liðinn. Ég rakst á tillöguna fyrir hálfgerða tilviljun rétt áður en ég fór í ræðustól og var nánast að lesa hana meðan ég var að klára ræðuna. Þar kemur fram hvernig breytingar verði gerðar á Stjórnarráðinu. Verða þær með þeim hætti að lögð verður fram þingsályktunartillaga og afgreidd við eina umræðu en samt með reglum um síðari umræðu? Ef ég skil þetta rétt er ræðutíminn sem sagt miðaður við síðari umræðu en þingsályktunartillagan afgreidd í einni umræðu. Þetta er klárlega skref í rétta átt að mínu mati. Ég hef hins vegar ekki séð neina annmarka á því að mæla fyrir lagafrumvarpi sem fer í þrjár umræður. En það er ekkert hægt að neita því, og ég geri það ekki, að þetta er skref í rétta átt. (Forseti hringir.) Ég verð að svara hv. þingmanni betur í seinna andsvari mínu.