139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:09]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst út af síðustu orðum hv. þingmanns þar sem hann kallar þetta málþóf vil ég ekki meina að svo sé vegna þess að það var alveg vitað mál og hv. þingmaður, sem situr í hv. allsherjarnefnd, hefði átt að vita það manna best hvernig það bar að. Málið var tekið úr ríkisstjórn með andmælum eins ráðherra og athugasemdum annars. Síðan þekkir hv. þingmaður betur en ég hvað hefur gerst í hv. allsherjarnefnd í meðförum málsins þar sem átti að taka málið út. Ekki var hægt að taka það þaðan vegna þess að meiri hlutinn klofnaði en það var gert þremur dögum seinna. Það á því ekki að koma neinum á óvart að það þurfi að ræða þetta mál töluvert.

Því er ekki að neita, og ég ítreka það sem ég hef áður sagt, að þó að við séum að ræða tillögu sem hv. þm. Mörður Árnason hefur ekki lesið og ég er að reyna að lesa á hlaupum þá kemur líka fram í greinargerðinni að málefnasvið einstakra ráðuneyta og fjölda komi fram í tillögunni þannig að klárlega drægi úr foringjaræði, sem margir hv. þingmenn hafa kallað svo, (Forseti hringir.) ef Alþingi kæmi að ákvörðunum. Það er til bóta.