139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:11]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eflaust hægt að svara því með sanngirni að ég tel ekki allt í þessu frumvarpi samræmast því en hugsanlega sumt. Þá kem ég að því sem ég benti einmitt á í ræðu minni áðan sem er þetta huglæga mat sem maður hefur. Sumir túlka hlutina með öðrum hætti en aðrir. Ég tel klárlega að sumt í þessu frumvarpi sé til bóta og með því sé í raun og veru verið að bregðast við því sem gerðist. En hvað varðar til að mynda 2. gr. frumvarpsins, sem er búið að ræða hér mikið og ég þarf svo sem ekki fara efnislega yfir, tel ég hana ekki til bóta og ekki samræmast því sem kemur fram í rannsóknarskýrslu Alþingis. Ég benti á það í ræðu minni þegar ég fjallaði um 4. gr. að mér finnst hún vera með þeim hætti að geta boðið upp á ákveðna lausung og stjórnleysi í því hvernig Stjórnarráð er skipað. Það finnst mér ekki ásættanlegt.