139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála þessum orðum hv. þm. Atla Gíslasonar hvað varðar 2. gr. frumvarpsins. Í umræðunni þegar við vorum að ræða skýrslu þingmannanefndarinnar, sem var samþykkt hér með 63 samhljóða atkvæðum, velti ég því einmitt upp og spurði: Hver á síðan að halda utan um framkvæmdina til framtíðar? Það er að segja, menn ætluðu að styrkja Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu, fara yfir þau atriði. Það hefði kannski verið eðlilegast og best ef til að mynda þingmannanefndinni, sem náðist svona sæmileg sátt um fyrir utan þá dapurlegu niðurstöðu sem þingið síðan tók, hefði verið falið að fjalla um og koma einmitt að samningu frumvarpsins sem við erum að ræða. Hvernig lagt var af stað með smíði þessa frumvarps er mjög ábótavant. Það hefði verið eðlilegra og skynsamlegra að hafa það í meira samráði en var gert.