139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:15]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hann fór vel yfir þetta mál og hver sýn hans er á það og benti eðlilega á margt jákvætt í frumvarpinu, jákvæðar breytingar sem er sannarlega mikilvægt að ráðist sé í, einkum og sér í lagi eftir það sem á undan er gengið hér á landi.

Það sem mig langaði hins vegar að velta upp er það sem mestur ágreiningur hefur verið um og er sem sagt flutningur á valdi frá Alþingi til hæstv. forsætisráðherra. Sér hv. þingmaður eitthvað athugavert við að þetta sé eins og það er í dag, að fram komi lagafrumvarp og það sé rætt í þinginu og málið ákvarðað af Alþingi? Hvað knýr á um að breyta þessu nákvæmlega núna? Sér hv. þingmaður fyrir sér (Forseti hringir.) að mögulegt sé að lenda málinu á þessu þingi miðað við þær miklu breytingar sem þarf að gera á því?