139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:17]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég kom inn á það í ræðu minni að ég teldi enga þörf á að breyta því fyrirkomulagi sem nú er. Ef gera ætti breytingar á Stjórnarráðinu væri lagt fram frumvarp til laga og það fengi eðlilega umfjöllun í meðförum þingsins og færi til umsagna. Það tel ég eðlileg vinnubrögð. Staðreyndin er hins vegar sú að við sitjum uppi með 2. gr. eins og hún er í frumvarpinu.

Ég sagði í svari til hv. þm. Marðar Árnasonar að fyrir lægi breytingartillaga frá fjórum hv. þingmönnum. Ég tel hana innlegg í málið. Ég er varla búinn að lesa hana þannig að ég ætla ekki að úttala mig um hvort hún gangi nógu langt. En ég tek undir það með hv. þingmanni að ég sé enga ástæðu til að breyta fyrirkomulaginu eins og það er. Ég sé ekki hvað ætti að hafa komið upp á til að þurfa að breyta Stjórnarráðinu svo ofboðslega snöggt að málið þyldi ekki að lagt yrði fram frumvarp til laga sem færi í eðlilega umfjöllun í þinginu eins og verið hefur.