139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mín skoðun er algjörlega kristaltær í þeim efnum. Ég tel mjög óskynsamlegt að stofna eitt atvinnuvegaráðuneyti. Ég tel mjög mikilvægt að við höfum áfram sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið í þeirri mynd sem það er. Það er ekki mjög langt síðan við vorum með þau hvort í sínu lagi, annars vegar sjávarútvegsráðuneyti og hins vegar landbúnaðarráðuneyti. Ég tel mjög mikilvægt að við höldum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í óbreyttri mynd. Það er ekki síst mikilvægt að við stöndum í fæturna þegar búið er að leggja inn aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Þetta eru grunnatvinnuvegir þjóðarinnar og það er mjög mikilvægt að við gerum þeim það hátt undir höfði að það ráðuneyti sem nú er starfi a.m.k. í óbreyttri mynd. Ég teldi það mikla afturför ef það yrði sameinað og færi undir atvinnuvegaráðuneyti. Afstaða mín er alveg skýr enda hefur það komið fram í umsögnum allra þeirra hagsmunaaðila sem falla undir (Forseti hringir.) þessi ráðuneyti að þeir eru mótfallnir þessari sameiningu ráðuneyta.