139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég byrja á því að svara því sem hv. þingmaður kom inn á síðast í ræðu sinni. Ég hef verulegar áhyggjur af því að fari frumvarpið óbreytt í gegn muni það sem hv. þingmaður er að vara við verða gert. Við deilum þeirri skoðun.

Ég er líka hugsi yfir því og hef reyndar sagt það hér áður að ég hef aldrei, og sit ég nú töluvert í þingsal, heyrt hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segja: Þetta tel ég vera best fyrir sjávarútveginn. Mín skoðun er sú að við höfum ekki haft hér almennilegan sjávarútvegsráðherra síðan hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson gegndi því embætti. Virðingarleysi hæstv. ráðherra gagnvart útveginum er með ólíkindum. Maður hefur velt því fyrir sér undanfarið þegar menn tala um að sameina þessi ráðuneyti að það er ekki sama hver er ráðherra á hverjum tíma. Framkoma núverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í garð sjávarútvegsins í landinu er með eindæmum. Gagnvart þeirri atvinnugrein hefur hann gengið fram með algjöru virðingarleysi og skeytingarleysi.