139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög skemmtileg og athyglisverð nálgun. Ég held að við ættum í fullri alvöru, í það minnsta ég og hv. þingmaður, að setjast yfir það hverju þarf að breyta til að þetta geti orðið að veruleika því að ég er mjög hrifinn af þessari nálgun.

En það breytir því ekki að staðan er þannig í dag að þetta er hjá framkvæmdarvaldinu og eins og þetta frumvarp lítur út sýnist manni að verið sé að styrkja það enn frekar. Ef ég man rétt var Alþingi gert að skerða fjárveitingu til sín töluvert mikið við síðustu fjárlög og væntanlega verður eitthvað svipað varðandi þau fjárlög sem nú á að fara að vinna að, en þar þurfum við að standa saman.

Það sem mig langar í seinna andsvari að velta upp eru hlutir sem nefndir eru í skýrslu þingmannanefndarinnar. Ég hef verið að spyrja um það í þessum ræðustól vegna þess að þetta skiptir miklu máli. Það skiptir máli hvort við erum að vinna eftir eða fara að þeim ráðleggingum, leiðbeiningum, sem komu út úr efnahagshruninu og öllu því sem við áttum þar að læra af. Þar er talað um m.a. formfestu og oddvitaræði.

Ég hef verið að lesa ræður sem voru fluttar við 1. umr. þessa máls og hef verið að kynna mér blaðagreinar og annað í framhaldi af umfjöllun um þetta. Ég fæ ekki betur séð en að — mér hefur alla vega gengið illa að finna því stoð sem hér hefur verið haldið fram að röksemdina fyrir þessari breytingu, sérstaklega á ráðherravaldi eða valdi forsætisráðherra, sé að finna í þessari skýrslu heldur er það að finna í starfshópsskýrslunni svokallaðri. Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Hefur hann jafnmiklar áhyggjur og ég af því að ekki sé verið að auka formfestuna heldur að minnka formfestuna með frumvarpinu (Forseti hringir.) og að auka oddvitaræðið?