139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:54]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, hún var mjög góð. Hv. þingmaður fór vel yfir málið og sérstaklega þá þætti sem mikil gagnrýni hefur verið á, tók mjög góð sýnidæmi þar að lútandi og einmitt hvernig það er að spila inn í núverandi ríkisstjórn. Hv. þingmaður tók þar dæmi til að mynda af Grímsstöðum, þá deilu sem verið hefur um Grímsstaði á Fjöllum og þá staðreynd að mikill ágreiningur er milli hæstv. innanríkisráðherra annars vegar og hæstv. forsætisráðherra hins vegar í málinu, um þann möguleika að hæstv. forsætisráðherra gæti einfaldlega kippt þeim málaflokki út úr innanríkisráðuneytinu vegna þess að hæstv. innanríkisráðherra væri ósammála hæstv. forsætisráðherra.

Annað dæmi sem mætti nefna og hv. þingmaður kom að eru málefni sem tengjast Evrópusambandsumsókninni. Kann að vera að hægt sé að kippa ákveðnum málum út úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og jafnvel flytja þau til hæstv. utanríkisráðherra, heilum málaflokkum eða öðru slíku?

Mig langar að velta því upp við hv. þingmann í ljósi mikils ágreinings sem hefur verið í þessum stóru málum og hefur verið mjög sýnilegur og kom síðast fram í utandagskrárumræðu núna í vikunni þar sem tveir ráðherrar höfðu gjörólíka skoðun á því hver staða Evrópusambandsumsóknarinnar væri, hver næstu skref væru í því máli, það var eins og þessir tveir ráðherrar væru ekki í sömu ríkisstjórn. (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður að (Forseti hringir.) ástæða þess að málið er keyrt svo hart fram núna (Forseti hringir.) sé sú að til standi í þessum ágreiningi (Forseti hringir.) að beita þeim ákvæðum með þessum hætti?

(Forseti (ÞBack): Forseti biður hv. þingmenn um að stöðva mál sitt ef forseti hringir en forseti vill láta vita að einhver bilun er í klukkunni og því var forseti að óska eftir því að hv. þingmaður hætti ræðu sinni.)