139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög athyglisverð pæling sem hv. þingmaður nefndi en ég neita eiginlega að trúa því að hún geti verið rétt. Maður hefur nú séð ýmislegt tilskipanakennt en það að keyra heilt frumvarp um Stjórnarráð Íslands í gegnum Alþingi, í gegnum nefndir þingsins og gera ráð fyrir því að hv. þingmenn sem sitja í viðkomandi nefnd séu svo meðvitundarlausir að þeir taki ekki eftir því sem er að gerast, ég vil eiginlega ekki fallast á þann möguleika, en auðvitað lítur þetta þannig út.

Ef maður les 4. gr. með athygli stendur, með leyfi forseta:

„Stjórnarmálefni ber undir ráðuneyti eftir ákvæðum forsetaúrskurðar, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar, sem kveðinn er upp samkvæmt tillögu forsætisráðherra.“

Hann ákveður hvaða málefni heyra undir hvern ráðherra og hann getur breytt því hvenær sem er. Ef eitthvað rís upp, eitthvað gerist eins og með jörðina Grímsstaði á Fjöllum eða með aðildina að Evrópusambandinu og landbúnaðarráðuneytið, þá getur forsætisráðherra flutt þau málefni yfir í annað ráðuneyti eða til sjálfs sín sem hann treystir betur til að leysa samkvæmt sínum skilningi.

Það sem hv. þingmaður lýsti, eins og þetta er uppbyggt í dag, er eins og að tvær, þrjár eða fjórar ríkisstjórnir séu í landinu, og það er ekki nógu gott. Ég vil að hv. nefnd fari í gegnum þetta, reyni að finna það stjórnskipulag að ríkisstjórnin vinni saman og ræði málin út í sínum ranni. Ef menn telja að setja þurfi einhver sérstök lög um fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi eiga menn að gera það í sátt og sameiginlega en ekki (Forseti hringir.) að forsætisráðherra keyri yfir aðra ráðherra.