139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Andsvar hv. þingmanns er í takt við þá naumhyggju sem oft einkennir málflutning hv. þingmanns, sem er um margt mjög skynsöm í pólitískum skoðunum og á mjög góða samleið með þeim sem hér stendur. Til dæmis vill hv. þingmaður ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið en leggur á sama tíma mjög mikla áherslu á að það sé umfram allt mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn komist til valda. Hvað vill Sjálfstæðisflokkurinn gera ef hann kemst til valda? Draga til baka umsóknina, aðildarumsóknina að Evrópusambandinu. Þannig að því stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi hv. þingmanns, það gengur bara ekki upp.

Margt í ræðu hv. þingmanns var af svipuðum toga og stenst enga skoðun þegar horft er til þess vinnulags sem var í nefndinni, þeirra skýrslna sem liggja til grundvallar og hvernig rök eru færð yfir hverjum lið fyrir sig, hvernig hver liður er sóttur í ýmist rannsóknarskýrslu Alþingis, vinnu þingmannanefndarinnar eða skýrsluhöfunda skýrslunnar Samhent stjórnsýsla.