139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ágætt dæmi fyrr á þessu þingi, í vor, eru þingskapalögin. Þar náðu allir flokkar saman. Við vitum það í gegnum tíðina, við sem höfum verið hér lengur en eitt kjörtímabil, að það er ansi snúið að fá þingskapalög samþykkt. En hvað gerðu menn? Menn lögðu sig fram um það að ná breytingum á þingskapalögum, bæði forseti, forsætisnefnd, formenn þingflokka og allir sem komu að málinu. Þannig að það … [Frammíköll í þingsal.]

(Forseti (ÞBack): Gefa ræðumanni hljóð.)

… náðist og þess vegna tel ég mikilvægt að látið verði reyna á slíka samstöðu í öðrum málum.

Ef menn vilja hlusta og hafa hlustað hér á ræður þingmanna, þ.e. ekki síst stjórnarþingmenn, er hér ákveðinn tónn sem hefur verið sleginn af hálfu allra. Við munum ekki standa í vegi fyrir skynsamlegum breytingum á Stjórnarráðinu en þær breytingar sem hér liggja fyrir eru atlaga að þinginu að mínu mati. Mér finnst verið að skerða sjálfstæði þingsins í þessu. Er það ekki heilbrigt að við fáum að takast á um hvernig framkvæmdarvaldið (Forseti hringir.) á að líta út, hvernig ríkisstjórnin á að líta út? (Forseti hringir.) Hvað er hættulegt við það, frú forseti, að við ræðum aðeins hvernig ríkisstjórnin er (Forseti hringir.) skipuð hverju sinni? (Gripið fram í: Erum við ekki að ræða það?)