139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er ljóst af þessari upptalningu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams að evran er komin inn bakdyramegin sem annar gjaldmiðill þjóðarinnar. Um það þarf ekki að hafa mörg orð. Stór og vel rekin fyrirtæki telja hagsmunum sínum betur borgið í að gera upp í öðrum gjaldmiðli en íslensku krónunni. Það þarf að skoða. Við ræðum líka gjaldeyrishöft á þessu þingi og menn velta fyrir sér hvort fyrirtæki sem eru með yfir 70% í erlendum tekjum muni færa höfuðstöðvar sínar úr landi.

Við stöndum frammi fyrir vandamáli sem er íslensk króna með núverandi peningastefnu. Frammi fyrir því vandamáli standa stjórnmálamenn á Íslandi. Hvernig ætla þeir að bregðast við?

Kostur krónunnar er þau hagstjórnartæki sem bæði Seðlabankinn og stjórnvöld Íslands geta nýtt sér og stendur til boða en það er líka ljóst að hagstjórnartækin hafa oftar en ekki í för með sér gengissveiflur sem bitna á rekstri fyrirtækja og markaðsstöðu í útlöndum og vernda fákeppnisstöðu innlendra fyrirtækja.

Niðurstaða mín, frú forseti, er einföld. Við getum ekki búið við krónuna og óbreytta peningastefnu en við stöndum líka frammi fyrir því að annar gjaldmiðill er ekki á leiðinni inn á næstu missirum. Hvað ætla íslensk stjórnvöld að gera í því máli á þessari stundu og í náinni framtíð?