139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum lið til að ræða málefni Kvikmyndaskólans sem hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu en þau hafa nú tekið nýja stefnu. Niðurstaða Ríkisendurskoðunar sem fjallað hefur um fjárhag skólans, sú sem birt var í síðustu viku, er að ekki verði annað séð en að ríkisframlög til skólans hafi verið nýtt með eðlilegum og umsömdum hætti. Þetta skiptir mjög miklu máli og skapar forsendur að mínu mati til að leysa málið með samningum núna í kjölfarið.

Það hefur lengi legið fyrir að skólinn ætti í rekstrar- og skuldavanda og vel má gagnrýna forsvarsmenn skólans fyrir að hafa ekki dregið saman seglin í rekstrinum þegar fyrir lá að stefndi í óefni. Hins vegar verður líka, til að allrar sanngirni sé gætt, að viðurkenna að skólinn hefur ekki notið jafnræðis gagnvart öðrum einkaskólum á framhaldsskólastigi og nægir þar að nefna Menntaskólann Hraðbraut sem hefur notið allt að fjórfalt hærri framlaga úr ríkissjóði en Kvikmyndaskóli Íslands sem þó er eini kvikmyndaskólinn í landinu.

En þetta er fortíðin. Nú er sameiginlegt verkefni forsvarsmanna skólans og stjórnvalda að tryggja hag þeirra nemenda sem hafa fjárfest í þessu námi og valið þennan skóla umfram aðra kosti sem í boði eru í menntakerfinu. Þeir hafa í margar vikur verið í óvissu um hvort þeir fengju að ljúka námi sínu. Höfum í huga að nemendur eru í reynd stærsti fjárhagslegi bakhjarl þessa skóla því að 80% af rekstrartekjum skólans koma frá nemendum í formi skólagjalda. Ég tel því að nemendur eigi skýlausan rétt á því að fá viðunandi lausn sinna mála og ábyrgð stjórnenda skólans gagnvart þeim er mjög mikil. Ég tel eðlilegt að stjórnvöld stefni að því að gera samning til bráðabirgða út þetta skólaár en nýti jafnframt næstu mánuði til stefnumótunar um kvikmyndanám í framtíðinni þar sem fyrsta verkefni verði að láta vinna úttekt á faglegu starfi Kvikmyndaskóla Íslands. Jafnframt er mikilvægt að leita allra leiða til að fá fleiri aðila að þessum rekstri.

Virðulegi forseti. Nú er lag að semja í þágu þeirra nemenda sem hafa valið þennan skóla og fjárfest í honum upp á stórar fjárhæðir.