139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

uppgjör fyrirtækja í erlendri mynt -- Kvikmyndaskóli Íslands -- HS Orka ofl.

[10:48]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því í upphafi máls míns að taka undir með hv. þm. Kristjáni L. Möller og endurtaka það sem ég hef margoft sagt í þessum ræðustól, að við verðum að koma þessu álveri í Helguvík af stað, við verðum að ljúka við þessi verkefni sem eru í pípunum. Þessi staða er óboðleg og það er tilefni þess að ég kveð mér hljóðs undir liðnum um störf þingsins.

Í gær var í ríkissjónvarpinu frétt þess efnis að velferðarvaktin hefði skilað af sér áfangaskýrslu samstarfshóps á Suðurnesjum. Niðurstöðurnar komu svo sem ekki á óvart, að mesta atvinnuleysið væri á Suðurnesjum, Íbúðalánasjóður ætti flestar eignir á Suðurnesjum — 25% eigna Íbúðalánasjóðs eru á Suðurnesjum — lágt menntunarstig atvinnuleitenda, hlutfall barna sem eiga atvinnulausa foreldra er hæst, 22% — og það er mikið áhyggjuefni.

Ástæðurnar fyrir þessu voru líka gamalkunnar. Í skýrslunni var tiltekið að Suðurnesjamenn hefðu orðið fyrir áfalli þegar varnarliðið fór. Þetta vissum við. Sjávarútvegur hefur dregist saman í gegnum tíðina, þetta vissum við, og kreppan kom verst niður á Suðurnesjum. Þetta vissum við líka. Þessari skýrslu var skilað í júní til hæstv. velferðarráðherra og er að komast í fréttir núna. Þess vegna vakti það áhuga minn, ég hélt að þarna væri eitthvað nýtt á ferð.

Ég ætla að beina spurningu minni til hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur, formanns fjárlaganefndar og þingmanns frá Suðurnesjum: Hvað á að gera við þessa skýrslu? Á að skrifa fleiri skýrslur? Hér er bara vitnað í gömul verkefni og yfirlýsingar sem við þekkjum og getum rakið hér og þulið upp úr yfirlýsingu ríkisstjórnar úr Víkingaheimum sem ég gef faktískt ekkert fyrir vegna þess að við vitum að ekkert hefur orðið úr því.

Spurningin er þessi: (Forseti hringir.) Hvert er næsta skref? Hvað ætla stjórnvöld að gera við þessa skýrslu? Hvernig á að leysa þessi vandamál öðruvísi en að skapa atvinnu fyrir fleiri skýrsluhöfunda?