139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

uppgjör fyrirtækja í erlendri mynt -- Kvikmyndaskóli Íslands -- HS Orka ofl.

[10:50]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Oft eru skýrslur nauðsynlegar til að kortleggja ástandið en við Suðurnesjamenn hefðum ekki þurft að setja saman skýrslu. Við sem reynum þetta, ef ég leyfi mér að segja, á okkar eigin kroppi á degi hverjum vitum hvernig ástandið er þar.

Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir sem og hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson og Kristján L. Möller töluðu um atvinnumál og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir um velferðarmál. Mér finnst mikilvægt að við hugsum um þessi mál í samhengi vegna þess hversu nátengd þau eru. Það þarf að vinna að þeim báðum, ekki síst á Suðurnesjum þar sem ástandið er slæmt. Þar fer ástandið í atvinnumálum hægt batnandi sem betur fer. Atvinnuleysið var í ágústmánuði 10,4% en var á sama tíma í fyrra 11,4%. Það munar um þetta eina prósentustig en Suðurnesjamenn eru óþreyjufullir og það þurfa allir að leggja sitt af mörkum til að styðja við þau stóru verkefni sem eru nú langt komin á undirbúningsstigi, stjórnvöld með því að skapa umgjörð og starfsumhverfi fyrir fyrirtækin og sveitarfélögin með ýmsum hætti, m.a. með skipulagsmálum. Þrír fjárfestingarsamningar hafa verið gerðir sem nýtast stórum verkefnum á Suðurnesjum og hafa stjórnvöld þannig stuðlað að því sem ég tala um, sem sagt starfsumhverfi fyrir fyrirtækin.

Langtímaatvinnuleysi er staðreynd hér á landi og það þarf að vinna að þeim slæmu aukaverkunum sem því fylgja og tryggja virkni ungs fólks. Þess vegna er verkefnið sem nú er í gangi í menntamálaráðuneytinu og eins hjá aðilum atvinnulífsins mikilvægt en það gengur út á að fjárfesta (Forseti hringir.) í menntun, auka virkni unga fólksins og stuðla þannig að hagvexti til framtíðar.