139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

uppgjör fyrirtækja í erlendri mynt -- Kvikmyndaskóli Íslands -- HS Orka ofl.

[10:55]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr mig hvort þetta séu mínar vangaveltur. Já, þetta eru mínar vangaveltur. Ég er ekki að hnýta í forsetaræfilinn með neinum hætti eða beina orðum mínum til hans. Mér finnst þetta spurningar sem við eigum að velta fyrir okkur ef forseti lýðveldisins gerir athugasemdir við störf okkar á þingi. Ég get ímyndað mér það vel og auðveldlega að forsetinn gæti haft ýmislegt við málflutning hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur að athuga af og til. Hvernig ætlum við að bregðast við því ef (Gripið fram í.) forsetinn hnýtir í skoðun þingmanns á tilteknum málum og telur sig ekki geta setið undir því? (REÁ: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera?) Hvað ætlar forsetinn þá að gera?

Mér finnst að auðvitað þurfi að svara því ef forseti ætlar ekki að sitja undir ummælum kjörinna fulltrúa á þingi. Hvernig í ósköpunum ætlar hann þá að bregðast við? Það er alveg óháð málunum sem slíkum, hvort sem við erum er að ræða Icesave-málið, fjárlög, gjaldeyrishöft eða til dæmis vegagerð eins og forsetinn hefur haft skoðanir á. Mér finnst það ekki skipta nokkru máli í þessu sambandi. Mér finnst það skipta máli að forsetinn segist ekki ætla að sitja undir ummælum kjörinna fulltrúa á þinginu, hvort sem það eru ráðherrar eða þingmenn. Ef hann ætlar ekki að gera það og ætlar ekkert að bregðast við — hann ætlar kannski bara að standa undir þeim, ég veit það ekki, en hann verður þá að sýna okkur hvernig hann ætlar að bregðast við. Við sem hér erum og hingað vorum kosin hljótum að eiga rétt á að fá að vita hver viðbrögð forsetans verða við því sem við segjum í þessum sal eða í krafti stöðu okkar. Það er ekkert ósanngjarnt við það. (Gripið fram í.) Forseti verður bara að svara því hvernig hann ætlar að bregðast við ummælum og pólitískum átökum á þingi. Þetta eru bara möguleikar sem ég velti upp í stöðunni. Ég hef ekki hugmynd um hvort ríkisstjórn eða þing hefur hugsað sér að bera upp vantraust á forseta Íslands. Það er líka ein hugmynd (Forseti hringir.) í sarpinn.