139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

uppgjör fyrirtækja í erlendri mynt -- Kvikmyndaskóli Íslands -- HS Orka ofl.

[10:59]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Þótt ótrúlegt megi virðast vil ég byrja á að taka undir orð hv. þm. Þorgerðar Katrínar þegar kemur að þessari umræðu um peningamálastefnuna og (Forseti hringir.) hvetja til þess —

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmann til að fara að reglum og kalla hv. þingmenn fullu nafni.)

Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, ég biðst afsökunar, frú forseti, og hvetja til þess að fram fari opin umræða um hvert við stefnum í peningamálum, gjaldmiðilsmálum og öðru slíku. Það veitir ekki af opinni umræðu um þessi mál, ekki hvað síst núna þegar við horfum á ástandið á evrusvæðinu og þann vanda sem þar blasir við. Ég veit að margir eru tilbúnir að taka þátt í þessari opnu umræðu og hvet til þess að hún fari í gang hið fyrsta.

Það sem mig langar til að ræða eru orðaskipti sem eiga sér nú stað milli ríkisstjórnarinnar og forseta Íslands á Bessastöðum. Ég ætla ekki að fara út í það hér hvort embættið er að breytast, í hvaða átt það er að þróast og hvort forsetinn sé að undirbúa framboð á nýjan leik en ég held að ef við skoðum síðustu tvö ár — hvað er það þá sem við getum horft til í því embætti og lært af því? Hvað er það sem við eigum að hafa áhyggjur af hér? Við eigum að hafa áhyggjur af því að hér hafi ítrekað farið í gegn Icesave-samningar, og það á jafnt við þann sem hér stendur og aðra, þvert gegn þjóðarvilja og þingið hafi ekki stöðvað þá. Þeir fóru í gegnum ríkisstjórn, þingflokka og Alþingi og jafnvel án þess að þingið hafi átt að fá að sjá þá eða þeir birtir opinberlega. Það þurfti síðan forseta Íslands til að stoppa þessa samninga og koma þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er stóra áhyggjuefnið fyrir okkur sem hér erum og við eigum öll að taka það til okkar. (VigH: Heyr, heyr.)