139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

uppgjör fyrirtækja í erlendri mynt -- Kvikmyndaskóli Íslands -- HS Orka ofl.

[11:02]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að gera að umtalsefni þær umræður sem hafa verið um Stjórnarráðið undanfarna daga og hafa gengið undir nafninu málþóf. Ég þekki málið vel og mér finnst málflutningur þeirra sem hafa talað hér fram á rauðanætur hvorki sérstaklega sannfærandi né undirbyggðar af sérstakri hugmyndafræði þeirra stjórnmálaflokka sem hafa staðið í púltinu. (PHB: Ég mótmæli þessu.)

Nú hefur komið fram breytingartillaga frá fjórum þingmönnum við þá grein sem mest hefur verið karpað um, 2. gr., þar af tveimur þingmönnum Framsóknarflokksins. Hugmyndin að þeirri tillögu var rædd strax um hádegisbilið í gær en samt heldur málþófið áfram. Ef þessi grein verður afgreidd er hægt að afgreiða þetta mál með sóma úr þinginu. Að öðrum kosti er einfaldlega um að ræða málþóf málþófsins vegna.

Hvað varðar gjaldeyrishöftin hafa þær umsagnir sem beðið var um komið inn til efnahags- og skattanefndar. Þar liggur fyrir tillaga um að skipuð verði sérfræðinganefnd um valkosti í peningamálastefnu og valkosti í gjaldmiðilsmálum. Það er ekkert vit í því að aflétta gjaldeyrishöftum fyrr en valkostirnir liggja fyrir. Þar af leiðandi er áframhaldandi málþóf um gjaldeyrishöftin á þeim forsendum út í hött en svo fremi sem það verður unnið að því að vinna peningamálastefnu og möguleika í gjaldmiðilsmálum er engin ástæða til annars en að hægt sé að afgreiða það frumvarp líka. Þingið er að gera sig að algjöru athlægi úti í samfélaginu með þessu málþófi og ég skora á þingmenn að velta þessum málum fyrir sér upp á nýtt og láta af þessu bulli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)